Úr engu

Prrr…kalt í dag.

Ekkert að gera í búðinni og Spúnkhildur veik heima. Smábátur flýr kuldann inn í hlýtt hálfrökkur Nornabúðarinnar, horfir á mig fletta spilum og segir mér frá verkefnum sem hann er að vinna fyrir skólann.

Svo þegjum við saman smástund.

-Það er eitt sem ég hef aldrei almennilega skilið, segir hann svo skyndilega upp úr eins manns hljóði, þetta með það hvernig heimurinn varð til úr engu. Hvernig getur hafa verið ekkert?

Ekki hef ég svörin þrátt fyrir 30 ára aldursmun og skeggleysið hindrar hann ekkert í því að skeggræða endaleysu- og eilífðarmálin. Hann er spakur drengurinn en ætli hann eigi ekki eftir að komast að sömu niðurstöðu og flest okkar; að það sé örugg leið til að missa vitið að reyna að finna svörin.

Best er að deila með því að afrita slóðina