Eina krafan

-Það er ekki skynsamlegt hjá okkur að hittast svona oft og það er ekki á stefnuskránni hjá mér að vera hjákona, ekki heldur platónsk hjákona sagði ég.

-Þú getur nú varla litið á þig sem hjákonu ef þú berð engar tilfinningar til mín, sagði hann.
-Ég hef ekki sagt að ég beri engar tilfinningar til þín. Bara ekki þær sem þú vilt og þessvegna væri ekkert vit í því að láta þetta ganga lengra og þú veist það alveg.

Þögn.

-Myndirðu fara frá konunni þinni ef ég bæði þig um það?
-Þú myndir aldrei biðja mig um það og á meðan staðan er þannig geturðu ekki ætlast til þess að ég svari þessu.
-Samþykkt. En myndirðu tyfta mig ef ég bæði þig um það?
-Þú bæðir aldrei um það heldur.
-Vertu ekki of viss um það Ljúflingur, stjórnsamt fólk verður stundum þreytt á sjálfu sér.
-Biddu um það sem þér sýnist, í versta falli segi ég nei.
-Þú myndir aldrei segja nei. Þú myndir bara gera eitthvað sem þú vilt ekki, bara til að þóknast mér.
-Vertu ekki of viss um það, undirgefið fólk verður stundum þreytt á sjálfu sér.

-Ef ég héldi að þér væri einhver greiði gerður með því myndi ég ekki hika við að eyðileggja þessa satanísku sambúð þína en ég er hrædd um að þú verðir að sjá um það sjálfur. Og jafnvel þótt ég vildi búa með þér yrðir þú fluttur út eftir 3 mánuði.
-Af hverju heldurðu það?

Af hverju heldurðu það? spurðir þú. Ég held ekkert um það. Ég bara þekki sjálfa mig. Málið er yndið mitt að þú fannst þína Barböru Reiley og hún er ekki ég. Nei það er satt, ég myndi aldrei biðja þig um neitt sem er þér ekki að skapi. Eina krafan sem ég hefði gert til þín væri eina krafan sem þú stendur ekki undir. Ég myndi krefjast heiðarleika og það er ekki raunhæft nema gefa þér fullkomið frelsi, sem er í eðli sínu ekkert annað en bölvuð stjórnsemi; krafa um að þú stjórnir þínu eigin lífi, horfist í augu við sjálfan þig og takir ábyrgð á sjálfum þér.

Með mér hefðirðu orðið að afbera frelsið og það er, þegar allt kemur til alls, það sem þú óttast meira en nokkuð annað. Kannski það eina sem þú óttast. Og þessvegna Ljúflingur, þessvegna er mér lífins ómögulegt að elska þig eins og á að elska. Því síður gæti ég gert þér það til geðs að kúga þig. Mér þykir það leitt en ég hef það bara ekki í mér.

Best er að deila með því að afrita slóðina