Lögboðinn brúðkaupsdagur

Á fyrsta degi sorgar er maður ósofinn, máttvana af hungri en getur samt ekkert látið ofan í sig. Á þessu stigi er maður samt sem áður nógu dofinn til að æða af stað og leita að húsnæði, sækja um aukavinnu, lesa sjálfshjálparbók og skrifa smásögu.

Það er ekki fyrr en á öðrum degi sem áfallið kemur fram í tilfinningalegum viðbrögðum. Það er þá sem manni verður ljóst að ekkert sem maður gerir mun nokkurntíma breyta þeirri staðreynd að maður er einfaldlega misheppnaður. Maður svarar ekki símanum og nákvæmlega allt sem gerist í veröldinni er persónuleg árás örlaganna á mann sjálfan. Það er beinlínis móðgandi að sólin skuli leyfa sér að skína en fyrst hún er að glenna sig þetta er kannski eins gott að taka sorgina út á fallegum stað.

-Tilfinningalegt varnarkerfi mitt er eins og reykskynjari sem fer í gang í hvert sinn sem maður ristar brauð. Það er ekki hægt að taka mark á svoleiðis reykskynjara svo á endanum hættir maður að hlaupa af stað þótt hann fari að væla eða þá að maður aftengir hann. Svo þegar húsið brennur ofan af manni getur maður engum öðrum en sjálfum sér um kennt, sagði ég við Drenginn sem alla jafna fyllir æðar mínar af Endorfíni.
-Það er ekki nauðsynlegt að aftengja tæki þótt þau séu vanstillt. Það er hægt að laga þau sagði hann og leiddi mig inn í skrúðgarðinn þar sem við okkur þetta líka huggulega brúðkaup.
-Einmitt það sem mig vantaði“ sagði ég, við ættum kannski frekar að fara í þessa átt.

Við gengum í hina áttina en þar í skjóli runna var -hvað haldið þið -annað brúðkaup í gangi. Ég horfði ráðvillt á drenginn „deisjavú?“
-Nei, sagði hann, hópbrúðkaup og benti á eitt parið enn, ég held að við ættum kannski frekar að fara upp í Heiðmörk.

Við gengum fram á fjórða brúðkaupið á leiðinni út úr garðinum og þegar við ókum fram hjá kirkjunni og sáum fimmtu brúðhjónin koma út, hlógum við að þessum óbærilega fáránleika tilverunnar.

Það er satt að segja ákveðin fróun í því að skipta úr sápuóperu yfir í gamanþátt þegar svona stendur á.

Best er að deila með því að afrita slóðina