Þessi fallegi dagur

Á leiðinni upp í Heiðmörk handfjatlaði ég hálsmenið sem Húsasmiðurinn gaf mér. Það er Davíðsstjarna.
-Tákn hinna landlausu, sagði hann þá og ég sagði það ekki en ég hugsaði að líklega væri hún frekar tákn þeirra landleysingja sem hröktu annað fólk frá heimilinum sínum, gerðu það að Landleysingjum sem hröktust frá eigin landi og misstu allt að ástvinum sínum meðtöldum.

Ég henti mér niður í Heiðmerkurmosann og Drengurinn sem fyllir æðar mínar af Endorfíni settist hjá mér
-Ekkert í heiminum er dýrmætara en tilfinningatengsl svo vertu aldrei svo heimskur að fara frá konunni þinni bara út af leiðindum eða einhverju kjaftæði sagði ég.
-Hvarflar ekki að mér sagði hann og tók um úlnlið minn.
-Þetta væri góður dagur til að deyja sagði ég, hálfpart við sólina og hálfpart við hann.
-Það þyrfti ekki mikið til að brjóta þessi bein, sagði hann og herti takið um úlnliðinn á mér.
-Finndu frekar hálsinn á mér hvað hann er mjór, sagði ég og hann tók mjúklega um kverkar mínar.
-Hertu að, sagði ég. Ég á skilið að fá einn rómantískan draum uppfylltan og þú veist að við hefðum orðið elskendur ef væri ekki svona mikill aldursmunur á okkur.
-Það gæti orðið athyglisverð reynsla, sagði hann.
-Myndirðu gera það fyrir mig?
-Þú veist að ég myndi gera ýmislegt fyrir þig. Ég er næstum jafn siðblindur og þú sjálf, svo ég skal taka ábyrgð á ótímabærum dauða þínum ef þú tekur í staðinn ábyrgðina á því að búa til fjöldamorðingja.
-Heldurðu í alvöru að þú fengir kikk út úr því?
-Ég veit það ekki, sagði hann og fáfræðin er stórlega vanmetin.
-Mér þykir vænt um þig sagði ég. Flestir myndu reyna að koma fyrir mig vitinu, útskýra í löngu máli hve ósiðlegt það sé að láta svona hugsanir eftir sér, stinga upp á gráti og geðlyfjum og reyna að telja mér trú um að þetta lagist allt þegar ég finni húsnæði.
-Fólk hræðist bara hreinskilnina í þér, sagði hann. Hann tók aftur um kverkarnar á mér og hendur hans voru hlýrri en sólin.

-Það er náttúrulega ekki eins rómantískt en kannski gæti ég bara skipt um bremsuborða í bílnum þínum og hjálpað þér að finna íbúð, sagði hann.
-Að sjálfri mér undanskilinni ertu heilbrigðasti sýkópati sem ég þekki, sagði ég.

Ég stóð upp og dustaði mosa og strá af kjólnum mínum. Opnaði festinguna á hálskeðjunni og fann hvernig gyðingastjarnan rann, eða öllu heldur hrapaði milli brjósta minna og snerti kviðinn ofurlítið kitlandi, rétt áður en hún hvarf niður í hraunið.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina