Tepruskapurinn í kringum Chomsky

Egill Helgason ympraði á því svona í framhjáhlaupi.

Annars hafa fjölmiðlar kallað Noam Chomsky mesta hugsuð samtímans, áhrifamesta þjóðfélagsrýninn, einn vinsælasta álitsgjafann, þeir hafa jafnvel kallað hann aktivista þótt hann hafi nú lengst af verið meiri hugmyndfræðingur en aktivisti.

Af einhverjum dularfullum ástæðum virðist það vera einhverskonar feimnismál að Noam Chomsky, vinsælasti spekingur samtímans er anarkisti. Hefur m.a.s. lýst sjálfum sér sem anarco syndicalista. Af einhverjum undarlegum ástæðum er eins og megi alls ekki minnast á að samfélagsrýni hans ber öll meiri eða minni (aðallega meiri) keim af þeirri skoðun að yfirvald sé almennt til óþurftar og að hann telur yfirvald eingöngu eiga rétt á sér í þeim tilgangi að vernda og hjálpa, t.d. vald til að bjarga lífi manns sem er ekki í ástandi til að gefa samþykki.

Af einhverjum ástæðum nefnir enginn að andúð Chomskys á hernaði, áhugi hans á mannréttindum og tjáningarfrelsi, gagnrýni hans á stóriðju, þjóðernishyggju og jafnvel þjóðríkið og sú skoðun hans að kapítalismi og lýðræði fari illa saman, eru hugmyndir sem flestir anarkistar eiga sameiginlegar (enda þótt vitanlega deili fleiri einhverjum þessara hugmynda eða öllum.)

Nú er Chomsky sjálfur ekkert sérlega gefinn fyrir merkimiða og þótt öll hans orðræða beri þess merki að hann er anarkisti þá er hann ekkert að stagast á því sjáfur. Engu að síður eru íslenskir fjölmiðlar almennt frekar áhugasamir um stjórnmálaskoðanir mikilla áhrifamanna og því hlýtur sú spurning að vakna hvers vegna Íslendingar virðast forðast að nefna þá mikilvægu staðreynd að Noam Chomsky er anarkisti.

Líklega er það vegna þess að hann er hvorki með hanakamb né groddalokka og klæðist ekki fötum sem frænka hans keypi á nytjamarkaði og henti svo þegar hún úrskurðaði þau ónýt 6 árum síðar. Það er nokkuð ljóst að virðulegur, eldri prófessor í kaðlaprjónspeysu getur varla verið anarkisti. Ekki fremur en íslenskir góðborgarar geta verið nazistar nema bera hakakross. Eða ef hann er nú samt anarkisti, þá er allavega eins gott að nefna það ekki, því ekki viljum við nú koma óorði á fordóma Íslendinga gagnvart anarkisma.

Ómar Valdimarsson finni sér vinnu sem hann ræður við

Ómar R. Valdimarsson segist eftir að hafa lesið Hæstaréttardóminn, sannfærður um sekt sakborninga í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu. Ég velti því fyrir mér hvort Ómar hafi virkilega ekkert frétt af því að þeir sem dæmdu málið voru hinir sömu og fóru með rannsókn þess. Halda áfram að lesa

Þú sem rekur fjölmiðil

Nokkrar vísbendingar um að þú ættir kannski að hætta að reyna að reka alvarlegan fjölmiðil og sækja frekar um vinnu á Barnalandi.

-Þú skilur ekki muninn á fréttamanni og lélegum bloggara.

-Þú skilur ekki siðleysið sem felst í svona vinnubrögðum eða þá að þér er bara sama.

-Þú álítur að þetta sé dæmi um viðunandi íslenskukunnáttu blaðamanns.

-Þú tekur frábæran samfélagsrýni af áberandi stað á netsíðunni og setur þetta í staðinn.

Halda áfram að lesa

Bleikt klám

Ég hef verið kölluð klámsinni, af því að ég er mótfallin ritskoðun. Af því að þótt mér kunni að þykja einhver list og dægurmenning vond og lágkúruleg, finnst mér tjáningarfrelsið of dýrmætt til að fórna því á altari smekklegheita og siðsemi.

Það er hinsvegar sitthvað ritskoðun og ritstjórn. Sumu efni hæfa bara ekkert hvaða miðlar sem er og klám er meðal þess efnis sem maður á að geta fulla stjórn á hvort maður verður var við eða ekki. Það er þessvegna sem dagblöð og aðrir almennir fréttamiðlar birta ekki hópreiðarsögur og innanpíkumyndir.

Undarlegt nokk virðist þessi ritstjórnarstefna þó eingöngu gilda um blátt klám. Það er hinsvegar orðið fátítt að ég opni íslenskan netmiðil, án þess að við mér blasi bleikt klám af einhverjum toga. Fréttir af einkalífi fólks sem hefur unnið sér það til frægðar að vera duglegt að djamma. Myndir af þessu sama fólki og tenglar á fróðleiksmola af bleikt.is. Ég held að Smugan sé eini miðillinn sem ég skoða reglulega sem hlífir mér við áreiti af þessu tagi.

Þeir sem hafa áhuga á þessu efni hafa greiðan aðgang að því og ekki vil ég að bleikt klám verði bannað frekar en blátt. Mér þætti hinsvegar við hæfi að fréttamiðlar sem vilja láta taka sig alvarlega, slepptu því að troða þessum hroða upp á lesendur sína.