Nauðgunarkærur sem tekjulind?

hammer-311342_640

Það er náttúrulega ekkert í lagi að hafa mök við 13 ára barn. Það er heldur ekkert í lagi að bjóða drukknum börnum í partý. Og jú það er hægt að ætlast til þess að fólk spyrji um aldur áður en það drífur sig í kynsvall með unglingum. En er þetta mál bara svo einfalt að strákurinn (varla vaxinn upp úr barnaskónum sjálfur) hafi sýnt gáleysi? Voru kannski fleiri sem sýndu gáleysi?

Af hverju sitja 13 og 14 ára telpur að drykkju? Af hverju fara þær heim með eldri strákum og gista þar? Hvað hefur gengið á í lífi barna sem eiga upptök að orgíu 13 og 14 ára? Hvar voru foreldrarnir? Og þeir sem horfðu á börn í kynlífsorgíu með fullorðnum, sýndu þeir kannski gáleysi með því að grípa ekki inn í? Ég er ekki að réttlæta strákinn, auðvitað hefðu þessir eldri piltar átt að koma börnunum heim eða láta ódrukkið, fullorðið fólk um það. Ég velti því samt fyrir mér hvort sé virkilega rétt að dæma einn mann þegar svona atburðir eiga sér stað.

Ég velti því líka fyrir mér hvort réttarkerfið sé endilega æskilegasti aðilinn til að taka á málum af þessu tagi. Skilaboð réttarkerfisins til brotaþola í nauðgunarmálum voru lengst af; sennilega ertu að ljúga en ef þér hefur verið nauðgað hefurðu allavega boðið upp á það. Skilaboð þess til nauðgarans voru; reyndu að komast hjá því að hafa vitni og veldu drukknar konur sem hafa orð á sér fyrir lauslæti.

Í þessu tilviki gefur réttarkerfið skilaboðin; nei það er ekki í lagi að hafa mök við smástelpu þótt hún sé full og þér finnist hún vera drusla. Það eru frábærar framfarir. Stundum hvarflar að mér að með töluverðum breytingum væri hægt að gera þetta réttarkerfi nothæft. EN. Skilaboðin til stúlkunnar eru hinsvegar; ef þú vaknar í vitlausu rúmi eftir að hafa drukkið þig fulla, þá geturðu grætt 600.000 kall á því að kæra einhvern fyrir nauðgun, þegar mamma þín ætlar að fara að skamma þig. Og það finnst mér í meira lagi vafasöm skilaboð.

Þjóna svona dómar einhverju réttlæti? Er stúlkan betur sett en áður? Hefur pilturinn heilbrigðari viðhorf til kvenna? Væri kannski hægt að vinna betur úr svona málum á öðrum vettvangi en í dómssal?

Deildu færslunni

Share to Facebook

One thought on “Nauðgunarkærur sem tekjulind?

  1. ——————————–

    Ég hugsaði nákvæmlega það sama og þú Eva þegar ég las þessa frétt. Það er reyndar einn þáttur sem mér finnst vanta í þennan dóm. Það er tekið fram að ekki var um nauðgun að ræða og að frásögn stúlkunnar rímar ekki við frásögn annarra. Með öðrum orðum, hún kærir mann fyrir nauðgun án þess að fótur hafi verið fyrir slíku. Á ekki að kæra hana fyrir rangar ákærur? Er það bara í lagi að bera slíkar ásakanir á borð?

    Annað sem fór um huga minn var, ætli ég hafi verið nógu þroskaður til að standast þessar freistingar sem 19 ára drengur? Það fer líklega eftir hversu þroskaðar stúlkurnar voru en ef þær voru mjög þroskaðar miðað við aldur, veistu, ég er bara ekkert viss. Sem betur fer stóð ég aldrei frammi fyrir slíku vali svo ungur.

    Ég á 13 ára stelpu og ég myndi aldrei láta hana vera fulla í veislu hjá fullorðnum. Það er eitthvað mikið að heima við.

    Posted by: Þorkell | 2.07.2011 | 18:43:58

    ——————————–

    Ég þekki nú reyndar dæmi þess að unglingar drekki sig fulla án samþykkis foreldra svo ég vil nú ekki dæma heimilið án þess að þekkja neitt til.

    Það er auðvitað alvarlegt að bera mann röngum sökum en getur verið að hún hafi gripið til þess af því að hún gerði ráð fyrir að viðbrögð foreldranna yrðu þá þægilegri? Ekki að það réttlæti það en ég held að sterk tilfinningaviðbrögð við kynferðislegum uppákomum og áföllum geti jafnvel gert þessi mál erfiðari.

    Ég er líka að spá í það hvort krakkar sem lenda í kynlífsreynslu sem þeir eru ósáttir við eftir á eru líklegri eða ólíklegri til að tala um það við fullorðna ef líklegt er að foreldrarnir vilji fara með málið fyrir dóm. Ég gæti trúað að þegar mál eru á mörkum þess að flokkast sem kynferðisafbrot þá vilji sá sem í hlut á kannski ekki hætta á að fara með málið fyrir dóm (og ég er ekki viss um að unglingurinn hafi raunverulegt val um það) en þar fyrir getur hún/hann haft þörf fyrir að tjá sig um það.

    Posted by: Eva | 2.07.2011 | 19:09:09

    ——————————–

    Sammála að kæruleiðin er ekki sú rétta í þessu tilfelli en ef dóttir mín hefði sagt að henni var nauðgað hefði ég líklega einnig kært málið. Ef ég hefði hins vegar fengið réttar upplýsingar hefði ég líklega ekki gert það. Dóttirin getur því sjálfri sér um kennt. Betra hefði verið að segja móður sinni rétt frá.

    Posted by: Þorkell | 2.07.2011 | 20:11:46

Lokað er á athugasemdir.