Fyrirsögnin á þessum pistli er röng. Ég hef ekki ástæðu til að ætla að flestir feministar ýki neitt meira en gengur og gerist. Ég ákvað að nota þessa yfirskrift vegna þess að ég vil að sem flestir sem hafa áhuga á áhrifum kynferðis á það hvernig lífið leikur okkur, lesi hann og velti fyrir sér muninum á því sem talið er að rannsóknir sýni og því sem þær sýna raunverulega.
Er feminismi nothæft hugtak?
Ég er stundum spurð hvort ég sé feministi. Ég á erfitt með að svara því. Ég tel að jafnrétti sé ekki náð en ég er í mörgum atriðum ósammála feministafélagi Íslands um það hvað jafnrétti merki og hvernig best sé að ná því.
Hugtakið feminsmi, eins og það er notað í dag, er svo víðfeðmt að það er nánast ónothæft. Það er notað um nánast alla hugmyndafræði sem beinir sjónum sínum að samskiptum kynjanna. Ég hef heyrt örgustu karlrembusvín kalla sig feminista af því að þeir telji ekki beinlínis nauðsynlegt að svipta okkur kosningarétti og einhverntíma las ég bloggfærslu amerískar konu sem telur það kristilega skyldu eiginmannsins að hirta konu sína líkamlega ef hún virðir ekki stöðu hans sem höfuðs heimilisins. Þessi kona kallaði sig líka feminista. Flestir feministar sem ég verð vör við leggja áherslu á þá skoðun að rótgrónar hugmyndir um stöðu og hlutverk kynjanna séu oft konum í óhag og að til að auka jafnræði þurfi að sporna gegn þeim. Það er langur vegur á milli þeirra kvenréttindasinna og kristnu konunnar sem lítur á það sem kvenréttindamál að vera manninum sínum undirgefin.
Vondar baráttuaðferðir
Ég verð einnig vör við það viðhorf að flest vandamál megi túlka sem kúgun karlaveldisins á konum og að konur séu alltaf á einhvern hátt fórnarlömb. Jafnvel dómskerfið, þar sem hver örviti sér að hallar á karla, er að bregðast konum með mildri meðhöndlun. Það eru feministar af þessu tagi, fórnarlambsvæðendurnir sem ég geri að umtalsefni hér, með réttu ætti yfirskriftin því að vera ‘Af ýkjum fórnarlambsvæðenda’.
Þótt ég sé fórnarlambsvæðendum ósammála er langt frá því að ég vilji þagga niður í þeim. Ég held að öfgar séu hverju samfélagi hollar. Öfgar eru ekkert annað en þau viðhorf sem víkja frá norminu og broddflugur samfélagsins, það fólk sem fær okkur til að horfa aðeins fram fyrir nefið á okkur, gegnir mikilvægu hlutverki í þróun lýðræðisins. Mér finnst allt í lagi að til sé fólk sem álítur að allar konur séu fórnarlömb og allir karlar níðingar. Reynsla flestra er nefnilega allt önnur og kostir þess að allar skoðanir fái að heyrast, vega í mínum huga þyngra en hættan á því að einhver taki upp tímabundna fordóma eftir að hafa hlustað á innspírerandi ræðu. Það sem mér finnst hinsvegar ekki í lagi eru þær aðferðir sem oft eru notaðar til að afla þessum hugmyndum fylgis. Þær eru nefnilega bæði siðferðlega rangar og hættulegar að því leyti að þær kynda undir fordómum sem síður skjóta rótum ef fólk fær réttar upplýsingar. Þessar aðferðir eru ýkjur, útúrsnúningar, undanbrögð og í sumum tilvikum hreinar og klárar lygar. (Hér eru nokkur dæmi um stórkostlegar ýkjur um kynlífsþrælkun og hér nefnir dönsk hóra dæmi um það hvernig dönsk félagsmálayfirvöld ganga fram hjá sínum eigin rannsóknum þegar þeim finnst hentugra að ýkja.)
Fórnarlamsvæðendur sem berjast gegn svokallaðri klám- og kynlífsvæðingu virðast oft vera meiri sérfræðingar í ýkjum og útrúrsnúningum en aðstæðum þeirra sem starfa við kynlífsiðnað. Tölur um kynferðisofbeldi, eiginkvennabarsmíðar, mansal, og annað óréttlæti sem bitnar á konum, eru iðulega ýktar. Erfitt reynist að fá upplýsingar um heimildir og algengir eru útúrsnúningar á borð við þá að leggja fram tölur um barnanauðganir í fátækustu ríkjum jarðar þegar spurt er um kynferðisofbeldi gagnvart frjálsum hórum í Vestur Evrópu. Stundum eru rannsóknarniðurstöður skáldaðar upp. Það er þetta sem er ekki í lagi. Það er nefnilega hægt að verjast áhrifunum af því að tiltekin kona álíti karla vera nauðgara í eðli sínu. Það er hinsvegar erfiðara að verjast niðurstöðum vísindanna og því skiptir máli að þar sé farið með rétt mál.
Eitt dæmi um óheiðarlegan málflutning
Í fyrradag átti ég áhugaverðar samræður í skotgröf DV í kjölfar þessa pistils.
Kona sem helgar sig baráttu gegn vændi og kynferðisofbeldi (sem hún leggur að jöfnu) og er greinilega ánægð með þá stefnu að gera vændiskaup ólögleg, byrjar á því að setja fram alþekktar ‘staðreyndir’. Flestum vændiskonum er nauðgað, 90% þeirra eru fíklar, stór meirihluti þeirra varð fyrir kynferðisofbeldi í æsku.
Þar sem ég hef oft séð þessu og álíka trúverðugheitum haldið fram, bað ég um upplýsingar um rannsóknirnar sem styðja þessar fullyrðingar. Henni fannst það reyndar standa upp á mig að sanna að þetta væri ekki rétt (sama rökvilla og trúmenn nota þegar þeir segja manni að afsanna tilvist Guðs eða viðurkenna hana ella). Hún sagðist hafa rannsakað þetta sjálf og fannst undarlegt af mér að vilja sjá efni frá virtari vísindamönnum en eftir nokkur undanbrögð benti hún mér á tengla sem vísa á áhugaverðar heimildir; þessa skýrslu frá WHO sem fjallar um ofbeldi meðal ýmissa hópa og tillögur PAHO og WHO um aðgerðir til að bæta kynheilsu.
Ég opnaði skýrsluna frá WHO og las fyrst kaflann um ofbeldi gegn vændiskonum og öðru fólki í kynlífsþjónustu. Þetta er aðeins lítil klausa og hún hljóðar svo:
Sexual violence against sex workers
Whether trafficked or not, sex workers are at high risk for both physical and sexual violence, particularly where sex work is illegal (67). A survey of female sex workers in Leeds, England, and Glasgow and Edinburgh, Scotland, revealed that 30% had been slapped, punched or kicked by a client while working, 13% had been beaten, 11% had been raped and 22% had experienced an attempted rape (68). Only 34% of those who had suffered violence at the hands of a client reported it to police. A surveyof sex workers in Bangladesh revealed that 49% of the women had been raped and 59% beaten by police in the previous year; the men reported much lower levels of violence (69). In Ethiopia, a study of sex workers also found high rates of physical and sexual violence from clients, especially against the child sex workers (70).
Samkvæmt þessu verða um 11% vændiskvenna í breskum borgum fyrir nauðgun (ekki er ótvírætt hvort er einungis átt við naugðun í starfi og hvort kynlífsþrælar eru meðtaldir en það er heldur ekki víst að fjöldi þeirra sé nógu mikill til að hafa marktæk áhrif á niðurstöðuna.) Séu nauðganatilraunir teknar með bætast 22% við. Þá aðferð notar rannsóknarkonan í svörum sínum á þræðinum en henni hefur sennilega ekki dottið í hug sá möguleiki að sama kona hafi bæði orðið fyrir nauðgun og í einhverju öðru tilviki tilraun til nauðgunar, það er því ekki gefið að sé einfaldlega hægt að leggja þessar tölur saman. Ef við notum sömu aðferð (þ.e. að leggja bara saman) til að túlka rannsókn Velferðarráðuneytisins á ofbeldi gegn konum, komumst við að þeirri niðurstöðu að 37,6% íslenskra kvenna hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi í einhverri mynd frá 16 ára aldri (um 7% hafa orðið fyrir nauðgun.)
Heimildin segir allt annað
En gott og vel, höfum bara vaðið fyrir neðan okkur og sláum því föstu að 33% frjálsra vændiskvenna hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi af einhverju tagi. Nú efast ég um að talan 33% komi oft upp í hugann þegar fólk heyrir orðið ‘flestir’. Því síður 11%. Engu að síður heldur manneskja sem vísar í þessa heimild því fram að flestar vændiskonur verði fyrir nauðgun. Einnig er umhugsunarvert að sú aðferð sem hún notar, að leggja saman án þess að spyrja hvort þessir tveir flokkar kynferðisofbeldis skarist, myndi leiða okkur að þeirri niðurstöðu að það sé varla hættuminna fyrir konu (óháð kynhegðun) að búa á Íslandi, en að starfa sem hóra í Bretlandi. Ég hefði sennilega ekki nennt að skrifa langloku um fleipur ‘bara einhverrar’ konu en þessi kona vill vera tekin alvarlega sem vísindamaður og fólk hefur tilhneigingu til að taka mark á vísindamönnum.
Þegar ég benti blessaðri konunni á að hún væri nú ekki alveg sjálfri sér samkvæm þegar hún héldi því fram að flestum vændiskonum væri nauðgað en vísaði svo á heimildir sem segðu 11%, benti hún á móti á að skýrslan segir líka að 70% kynlífsþjóna í Eþíópíu verði fyrir ofbeldi. Þar er reyndar átt við allt ofbeldi og sérstaklega talað um að hlutfallið sé hátt meðal vændisbarna. (Afsakið en ég hélt að barnavændi væri í eðli sínu ofbeldi, ég veit ekki hvernig WHO reiknar þetta en ég hefði haldið að talan 100% ætti við um börn.) Rannsóknarkonan virðist semsé leggja nauðungarvændi og barnanauðganir í Eþíópíu að jöfnu við það að fullorðin kona glenni sig á Goldfinger.
Annað sem mér finnst athyglisvert við þessa litlu grein í skýrslu WHO, er að samkvæmt henni er hættan á því að vændisfólk verði fyrir ofbeldi meiri þar sem vændi er ólöglegt. Nú liggur ekki fyrir hvort ólögleg vændiskaup hafa einhver önnur áhrif en ólögleg vændissala. Spyrja má hvort aukin hætta á ofbeldi standi í sambandi við minni möguleika vændiskvenna á að starfa sjálfstætt en með sænsku aðferðinni hefur innflytjendum verið gert nánast ómögulegt að stunda kynlífsþjónustu án milligöngumanns eða ‘verndara’. Ég heyri því iðulega haldið fram að sænska módelið þjóni þeim tilgangi að vernda vændiskonur (sem kæra sig ekki um þessháttar vernd) en ekki hef ég séð neina vísun til rannsóknar sem bendir til þess að þeir viðskiptamenn sem eru tilbúnir til að brjóta lög, séu öðrum ólíklegri til að beita ofbeldi. Það er því athyglisvert að því fólki sem er svona umhugað um verndun vændiskvenna finnist engin ástæða til að kanna hvort lögin sem þau hafa knúið í gegn bjóði upp á meira ofbeldi.
Ég skoðaði einnig tillögur PAHO og WHO um leiðir til bættrar kynheilsu. Ég hef ekki lesið skjalið frá orði til orðs. Ég skannaði það og í fljótu bragði sé ég ekkert sem rennir stoðum undir þá kenningu að flestum vændiskonum sé nauðgað að 90% þeirra séu fíklar eða að stór meirihluti þeirra hafi orðið fyrir kynferðsofbeldi í æsku.
Ekki treysta fullyrðingum feminista um niðurstöður rannsókna
Það er gott og nauðsynlegt að almenningur sé meðvitaður um skuggahliðar klám- og kynlífsiðnaðarins. Það er gott að fólk sé meðvitað um að kynferðisofbeldi og eiginkvennabarsmíðar eiga sér stað og að sem flestir sjái sér skylt að sporna gegn því. Við eigum feministum mikið að þakka og ég vil ekki sjá samfélag án feministahreyfinar. En næst þegar þú heyrir manneskju sem kallar sig feminista halda því fram að ‘rannsóknir sýni’ þetta eða hitt eða að ‘flestar’ konur verði fyrir tilteknu óréttlæti, hafði þá í huga að rannsóknirnar eru stundum ekki til, stundum ófaglega unnar og sýna stundum eitthvað allt annað en það sem haldið er fram. Spurðu um gögnin og kynntu þér þau áður en þú leggur trúnað á að sambúð við íslenskan karlmann sé erlendri konu að öllum líkindum stórhættuleg eða að allar konur í kynlífsiðnaði séu fórnarlömb og þær sem óska þess að vera látnar í friði séu bara haldnar Stokkhólmsheilkenninu. Hafðu líka í huga að ‘flestir’ getur í sumum tilvikum þýtt 11%, jafnvel hjá fólki sem telur sig vera vísindamenn.
Eitt að lokum, því í hvert sinn sem ég tjái mig um þöggun dræsunnar fæ ég þessa spurningu; myndirðu vilja að dóttir þín yrði mella? Þú sem spyrð, veltu því nú aðeins fyrir þér hvað hann afi þinn hefði sagt, ef hann hefði fyrir 30-40 árum verið spurður; vilt þú að sonur þinn verði hommi? Og ef hann hefði sagt nei, hefði hann þar með átt að viðurkenna viðleitni samfélagsins til að koma í veg fyrir kynhegðun sem honum fannst óþægilegt að setja í samband við sína nánustu?