Forsíðufrétt gærdagsins vakti mér óhug en þó fyrst og fremst hryggð.
Harmleikur, örvænting, neyð, voru fyrstu orðin sem komu upp í hugann. Þrátt fyrir hryllinginn fann ég til samúðar með stúlkunni. Ég ímyndaði mér að hún hlyti að vera búin að ganga í gegnum miklar þjáningar og að hún væri á einhvern hátt fórnarlamb aðstæðna fyrst hún gat gert sig seka um slíkt voðaverk. Það kom illa við mig að sjá upphrópanir á borð við grimmd, kvikindi, útlendingur. M.a.s. orðið barnamorðingihljómaði á einhvern hátt yfirgengilegt enda þótt þarna hafi barn vissulega verið myrt.
Af samræðum á netmiðlum að dæma eru þeir margir sem upplifa þetta á svipaðan hátt og ég, finnst þetta hræðilega sorglegt mál en vilja fara varlega í að fella dóma. Orðræðan afhjúpar á köflum þá afstöðu að hér hafi eitthvað illviðráðanlegt gerst, að stúlkan hafi lent í þessum hörmungum, nánast eins og fyrir slysni. Ég sá bæði karl og konu halda þvi fram að þetta væri ‘ekki glæpur heldur harmleikur’. Ég sá m.a.s. þessa klausu í netspjalli í gærkvöld: …stúlka lendir í ógæfu, hún lendir í dulsmáli, að verða barnshafandi, gera lítið úr þunga sínum, eignast barnið í felum…
Ég er ekki mikill fylgismaður refsinga og án þess að vita meira um málið en það sem fram er komið í fjölmiðlum, giska ég á að þessi kona hefði töluvert meira gagn af geðhjálp en refsivist. Ég vildi sjá réttarkerfi sem leggur litla áherslu á refsingar en mikla áherslu á að uppræta þær aðstæður sem geta af sér glæpi og hjálpa fólki að ná þannig stjórn á lífi sínu að það sé ólíklegra til ofbeldiverka eftir meðhöndlun dómskerfisins. Glæpir eru nefnilega æði oft birtingarmynd mannlegrar þjáningar og bera vott um samfélag þar sem bæði veraldlegum gæðum og kærleika er misskipt. Það lítur þó út fyrir að fólk sé misjafnlega meðvitað um harmleikinn að baki glæpnum eftir því hvers eðlis hann er og hver á í hlut.
Hugsum okkur t.d. kynferðisofbeldi (sívinsælt viðfangsefni fjölmiðla). Hvaða viðbrögð vekja fréttir af nauðgun?
-Þetta er fyrst og fremst mannlegur harmleikur, þessi maður hlýtur að vera búinn að ganga í gegnum einhvern hrylling sjálfur fyrst hann grípur til þessa örþrifaráðs.
-Maðurinn þarf hjálp en ekki refsingu.
-Það naugðar enginn konu að gamni sínu, hann hefur haft svona brenglaðar hugmyndir um skyldu sína til að refsa henni.
-Við vitum ekkert hvernig manninum hefur liðið, kannski hefur hann bara orðið ofboðslega reiður og misst algerlega stjórn á sér.
-Ég held að við skiljum ekkert ótta og örvæntingu þess sem er viss um að engin kona vilji sofa hjá honum.
-Ég vona bara að nauðgarinn fái áfallahjálp, hann elskaði konuna og hlýtur að vera miður sín yfir þessu.
-Þetta ber vott um geðbillun. Hann hlýtur að hafa álitið að hann væri að vernda hana gegn öðrum körlum.
-Kynsveltur karlmaður lendir í því að verða ástfanginn af rangri konu, hann lendir í því að stofna til sambands sem hann leynir og svo lendir hann í því að nauðga henni. Hún nær að stinga hann svo hann leitar sér hjálpar og á slysadeildinni lendir hann í því að neita því að vita hvernig hann meiddist.
E-hemmm… Nei ég held að það þurfi mikla viðhorfsbreytingu áður en við sjáum svona ummæli um nauðganir. Það ber heldur ekki mikið á samúð í garð smákrimma þótt ég þori að fullyrða að þeir séu oftar en ekki á einhvern hátt fórnarlömb aðstæðna. Margir síbrotamenn ólust upp við óreglu, ofbeldi og vanrækslu, voru komnir á kaf í vímuefnaneyslu sjálfir á barnsaldri, flosnuðu upp úr skóla og kunna í raun ekkert annað en að vera glæpamenn.
Hvernig stendur á því að við erum líklegri til að sýna gerandanum samúð þegar barn er drepið en þegar konu er nauðgað? Af hverju leggjum við meiri áherslu á nauðsyn geðhjálpar fyrir gerandann þegar um dulsmál er að ræða en annað ofbeldi? Af hverju erum við líklegri til að staldra við og velta því fyrir okkur hvaða ömurlegu aðstæður knýja fólk til voðaverka en því hvaða ömurlegu aðstæður gera það að síbrotamönnum?
Höfum við, eins og dómskerfið, tilhneigingu til að líta á konur sem þolendur og sýna þeim meiri mildi en körlunum?
Endurspeglar þessi munur á viðbrögðum dulda barnsfyrirlitningu samfélags sem telur 6 ára fangelsi hæfilega refsingu fyrir móður sem drepur barnið sitt en 16 ár viðeigandi fyrir þann sem drepur fullorðinn mann?