Krúsípúsí

krúsí
Karlremba er lúmskt fyrirbæri. Hún kemur ekki endilega fram í fyrirlitningu á konum eða illri framkomu við þær, heldur oftar í því að karlar tala niður til okkar án þess að gera sér grein fyrir því og í fullkomlega góðri trú.Þeir geta t.d. með ákveðinni aðdáun, gefið til kynna að konur séu eftirbátar karla, án þess að meina neitt illt með því. Þetta hljómar kannski þversagnarkennt en kannski átta einhverjir sig á því hvað ég á við með því að skoða orðræðu fullorðinna gagnvart börnum.

Þegar barn sýnir merki um að vera hugsandi vera fær það yfirleitt hrós. Það fær hinsvegar ekki áheyrn. Það fær ekki athygli fyrir það sem það er að fást við á sínum eigin forsendum, heldur byggist aðdáunin á því hversu vel barninu tekst að líkja eftir hinum fullorðnu.

Lítil telpa flytur ræðu opinberlega og fullorðna fólkið horfir gapandi af aðdáun á barnið sem hefur kjark til að standa fyrir framan fólk og segja skoðanir sínar eða bara yfirhöfuð að segja eitthvað. Umræðan snýst hinsvegar ekki um það hvað stúlkan hefur að segja heldur um aldur hennar og það hvað hún sé nú mikið rassgatakrútt. Þegar Dagur B. Eggertsson stígur í ræðustól, dettur hinsvegar ekki nokkrum manni í hug að hafa orð á því hvað hann sé nú mikill snúlli, þótt hann sé vissulega með laglegri mönnum.

Þegar litlir drengir stofna hljómsveit fær tónlist þeirra litla athygli en fólk missir þvag og slefar yfir því hvað þeir séu duglegir og miklir krúsidúllutöffarar. Hvort þeir eru upprennandi listamenn er ekki aðalatriðið heldur hvað þeir eru mikir dúllusnúllar að líta svo jákvæðum augum á framtíð sína, svo ungir. Yfirleitt eru listamenn svo tekir alvarlega þegar þeir vaxa úr grasi en kynferði og útlit hefur þó undarleg áhrif. Aðeins 10 ára að aldri var Björk Guðmundsdóttir orðin listamaður sem full ástæða var til að taka alvarlega en þótt hún sé komin á fimmtugsaldur og sennilega þekkasti og virtasti, íslenski listamaður allra tíma, loðir dúlluímyndin enn að einhverju leyti við hana. Hún er kona og hefur á einhvern hátt barnslegt yfirbragð og sú staðreynd virðist skipta næstum jafn miklu máli og listsköpun hennar.

Í síðustu viku færðu nokkrar framtakssamar telpur borgarsjóði gjöf til kaupa á hvítabirni fyrir Húsdýragarðinn. Þær höfðu haldið tombólu og safnað um 15.000 krónum. Umræðan á facebook snýst öll um það hvað þessar telpur séu mikil krútt og snúllur. Ekki um það hvort dýrafangelsi séu yfirhöfuð góð hugmynd eða hvort væri hægt að gleðja börn á einhvern geðslegri hátt en þann að koma bjarndýri fyrir í Húsdýragarðinum. Ekki um það hvernig megi virkja framtakssemi og ástríðu barna í þágu skemmtilegra borgarlífs, dýraverndar eða einhvers annars verðugs málefnis. Ekki um það hvort hugsast geti að mörg börn búi yfir hugmyndum og dugnaði sem er á einhvern hátt bældur niður. Nei, það er krúttleiki barna sem gera eitthvað sjálfstætt og taka af eigin frumkvæði einhver skref til að fá vilja sínum framgegnt sem er til umræðu. Fullorðnar konur sem leggja á sig sjálfboðastarf eru hinsvegar ekki krútt heldur dyggðum prýddar hugsjónakonur.

Það má kannski virða fullorðnu fólki það til vorkunnar að börn eru minnimáttar. Þau geta sjaldan bætt neinu merkilegu við vitneskju okkar, hæfileikar þeirra eru óþroskaðir og hugmyndir þeirra bera oft meiri vott um ástríðu en skynsemi. Það afsakar ekki þessa endalausu krúttumræðu en það skýrir hana að einhverju leyti. Hinsvegar er fátt sem bendir til þess konur séu neinir eftirbátar karla á andlega sviðinu. Við erum líkast til ekkert vitlausari en karlar eða vanhæfari til að tjá okkur. Samt sem áður er það svo að þegar karlar sem telja karlkynið kvenkyninu æðra, tala um konur, sér maður svipaða tihneigingu og þegar fullorðnir tala um börn. Því miður sér maður þessa tilhneigingu líka hjá jafnréttissinnuðum körlum og hjá konum þótt í minna mæli sé, svo lúmsk er hún helvitis karlremban.

Konur geta vissulega gert jafn mikilvæga hluti og karlar en oft, allt of oft, snýst umræðan að nokkru leyti um kynferði og krúttleika þegar konur eiga í hlut. Ég hef þessa reynslu sjálf. Þegar karlar gefa eitthvað út á það sem ég skrifa eða segi um samfélagsmál, fylgir því oftar en ekki einhver athugasemd um útlit mitt og má þá einu gilda hvort karlinn er mér sammála eða ósammála. Í hvert einasta skipti sem mynd hefur birst af mér í fölmiðlum, hef ég fengið einhverjar athugasemdir um útlit mitt. Oftast eitthvað á borð við ‘þú komst þessu vel frá þér og svo leistu líka vel út’ eða ‘ég er alveg sammála þér en mér fannst myndin ekki nógu góð.’ Það er í sjálfu sér ekkert að því að segja svona. Þetta er ekkert ljótt eða móðgandi og ég hef aldrei tekið þessu sem öðru en hrósi en mig rennir í grun að það sem skiptir máli í huga karlrembunnar sé ekki það sem ég segi, heldur að kona og þá sérstaklega smávaxin kona skuli stíga fram og rífa kjaft. Það er eitthvað svo krúttlegt. Svona eins og þegar litlar snúllur halda að þær geti fengið ísbjörn með því að halda tombólu.

Strákar, hugsið út í þetta í alvöru. Flestum konum finnst gaman að vera álitnar sætar og við viljum gjarnan að þið dáist að okkur. Hinsvegar viljum við líka að þið hlustið á okkur og virðið sjónarmið okkar. Haldið áfram að góna á brjóstin á okkur og fara á límingunum yfir því hvað við erum krúttlegar, endilega. En prófið samt líka af og til að loka augunum og opna eyrun. Prófið af og til að velta því fyrir ykkur hvort svarið sem þið gefið konunni væri viðeigandi ef þið væruð að tala við karlmann.

 

Deildu færslunni

Share to Facebook