Oooo … svo mikil dúlla

Ég er smávaxin, ljóshærð, geng oftast í pilsi eða kjól, nota blúndur, pífur og bjarta liti (nema þegar ég er í nornargírnum). Ég finn til mín þegar karlmenn segja mér að ég sé falleg. Mér finnst móðurhlutverkið vera merkilegasta starf í heimi og eins þakklát og ég er feministum fyrir baráttu sína fyrir menntun kvenna og valkostum, tel ég að kvenfrelsishreyfingin hafi gert stór mistök með því að gefa konum þau skilaboð að kona sem kýs að vera heimavinnandi sé ósjálfstæð, metnaðarlaus, kúguð og yfirhöfuð frekar aumkunarverð. Ég fæ fiðring í hjartað þegar ég sé karlmann handleika borvél eða önnur verkfæri og finnst gott að láta karlmann leiða mig eða leggja arm yfir axlir mínar í mannmergð. Ég teikna bleika blómasveiga utan um minnislistana mína og skreyti heimili mitt með brúðum, dúkum, púðum og sætum mokkabollum. Ég reikna með að það sé þetta sem fær þá sem þekkja mig ekki til að kalla mig dúllu eða krútt. Mér líkar það stórilla.

Margir hafa undrast óbeit mína á þessum orðum, einkum þar sem ég er ósköp hrifin af alls kyns dúllulegum hlutum. Hvað er svona slæmt við að öðrum (einkum karlmönnum sem halda að þeir séu gáfaðri en þeir eru) finnist ég sæt? Og ef ég er virkilega svona mikill trukkur í eðli mínu, hversvegna gef ég þá þessa krúttlegu mynd af mér?

fascinating-womanhood-iconSvarið liggur í hugmyndafræðinni á bak við dúlluna. Hugmyndafræði sem var vinsæl meðal kristinna húsmæðra í Bandaríkjunum á fyrri hluta síðustu aldar og er ennþá praktiseruð af stórum hópum kvenna í Bandaríkjunum og Evrópu. Þessar hugmyndir snúast aðallega um það hvernig konan geti gert hjónaband sitt að dansi á rósum með því að vera fullkomin eiginkona, þóknanleg jafnt eiginmanni sínum sem Gvuði. Helen Andelin er þekktasti boðberi þessara kenninga en hún byggir sinn boðskap á nokkrum bækingum sem gefnir voru út á 3. og 4. áratugnum. 1963 gaf hún út bók undir heitinu ‘Fascinating Womanhood’ og varð hún gífurlega vinsæl meðal kristilegra and-feministahreyfinga á 7. og 8. áratugnum. Enn í dag er þessari bók hampað meðal kristlinga og á henni eru byggð ýmis námskeið og netsíður sem fascinating womanhood hreyfingin (jamm það er stór cult hreyfing í kringum þessa bók) býður upp á.

Samkvæmt Helen Andelin er hlutverk konunnar skýrt í Biblíunni, hún á að vera eiginkona og móðir, dá og virða eiginmann sinn og vera honum hlýðin, búa honum dásamlegt heimili og styðja hann í einu og öllu. Hlutverk hans er að sjá henni og börnum farborða, elska hana og annast, sinna grófari heimilsstörfum svo sem viðgerðum og vera höfuð heimilisins, þ.e.hafa vit fyrir henni og taka ábyrgð á öllum meiriháttar ákvörðunum. Samkvæmt Andelin er megin ástæða hjónaskilnaða og óhamingju í hjónabandi sú að fólk fylgir ekki þessum lögmálum. Ef hjónabandið er ekki dans á rósum getur konan lagað það með því að uppfylla hlutverk sitt og geri hún það mun maðurinn hennar sjálfkrafa sinna sínu hlutverki betur og allir verða hamingjusamir.

Fascinating Womanhood kennir konunni að laða fram ást og blíðu í manni sínum með því að vera sæt og góð, temja sér mjúkar hreyfingar, tala með lágstemmdri, silkimjúkri rödd og koma sér upp kvenlegum áhugamálum. Í anda þessara kenninga eru í dag haldin námskeið fyrir konur í skilnaðarhættu og nú er til ókeypis og aðgengileg netútgáfa af frekar ömurlegri bók sem segir sögu konu sem bjargaði hjónabandi sínu með því að sækja slíkt námskeið. Þetta lesefni vekur hjá mér sömu hughrif og þegar ég heyri orð eins og krútt og dúlla notuð um fullorðið fólk.

Hin töfrandi kona leggur töluverðan metnað í að vera sæt fyrir manninn sinn og hún verður að hafa hugfast að er ekki hennar smekkur sem skiptir máli, heldur hans. Best er að spyrja hann ráða um þetta sem annað. En hún á ekki bara að vera sæt, hún á líka að helga líf sitt þeim tilgangi að snúast í kringum hann. Ég veit ekki hvort þessar leiðbeiningareru teknar beint upp úr bæklingunum sem urðu Andelin innblástur en þær eru svo sannarlega í fullu samræmi við bókina sem kom út 1963 og námsefnið sem komum er boðið upp á enn í dag.

Fyrsta kenning Helen Andelin er ósköp góð. Konan getur kallað það besta fram í manni sínum með því að taka honum eins og hann er og reyna ekki að breyta honum. Ég held að flestir geti fallist á að það sé æskilegt í öllum samböndum. Hún á líka að meta karlmannlega hæfileika hans að verðleikum og sýna honum virðingu og aðdáun og jájá þetta hljómar allt afskaplega sanngjarnt. Mér finnst hinsvegar ekki eins sanngjarnt að hún eigi að gæta þess að sýna aldrei meiri færni en hann í neinu því sem er álitið karlmannlegt eða gefa neinum tilefni til að ætla að hún sé á einhvern hátt klárari en hann nema í því að bródera og baka auðvitað.

images1Það gekk þó ekki alvarlega fram af mér fyrr en ég las kaflann um leiðtogahlutverk mannins. Konan má vissulega hafa skoðanir. Hún má bera fram óskir og uppástungur og segja manninum hvað hún telur best og réttast en svo framarlega sem hann misbýður börnum ekki kynferðislega eða beitir líkamlegu ofbeldi á alvarlegu stigi (það er auðvitað á hans ábyrgð að ákveða hvernig hann agar fjölskylduna), þá á hún að láta hann ráða. Eitt verkefnið sem mottan í sögunni fær er t.d.fólgið í því að útbúa, gjarnan í samvinnu við börnin, einhverskonar skírteini, viðurkenningarskjal eða jafnvel tákn á borð við veldissprota og afhenda karlinum með loforði um að hún og börnin muni framvegis hlýða ráðum hans og viðurkenna rétt hans til að stjórna heimilinu. Ég býst við að þeir sem aðhyllast Christian, Domestic Discipline hreyfinguna (sem gengur út á guðdómlegt vald karlsins til að aga konu sína með flengingum og þá er ekki átt við erótískan leik heldur líkamlegar refsingar) myndu mæla með að hún færði honum vönd eða beltisól til að hirta sig með.

Til þess að hjónabandið gangi upp er mikilvægt að konan sé fjárhagslega ósjálfstæð. Það er hans hlutverk að sjá fyrir henni og ef hann fær ekki að uppfylla það hlutverk skerðir það karlmennsku hans og hann verður hundleiðinleg væluskjóða. Ef konuna langar að kaupa eitthvað sem hann hefur ekki efni á að veita henni, á hún ekki að taka að sér hlutastarf heldur einfaldlega að endurskoða gildismat sitt og komast að þeirri niðurstöðu að hamingja hennar sé ekki fólgin í veraldargæðum heldur móðurhlutverkinu. Ef hann hefur í raun efni á því sem hún telur sig þarfnast en vill ekki láta það eftir henni, getur hún haft áhrif á hann með því að sjarmera hann upp úr skónum. Ekki með frekju, heldur með því að biðja fallega og brosandi á sama hátt og lítil, vel uppalin stúlka.

Reyndar gengur þessi hugmyndafræði að afskaplega miklu leyti út á ímynd litlu telpunnar. Konan á að velja sér telpulegan klæðnað og hárgreiðslu. Hún að spila sig hjálparvana (eða helst að vera það í alvöru) og leita til hans á sama hátt og lítil telpa leitar til föður síns (þetta er sagt berum orðum.) Hún á að vera sæt og góð eins og smástelpa og beita barnslegum ráðum til að fá sínu framgengt. Ef maðurinn hennar reiðist við hana á hún ekki að svara honum fullum hálsi, heldur dempa reiði hans með því að horfa skömmustulega niður í gólfið eða ef hann er mjög harður við hana, gráta. Hún getur líka í sumum tilvikum gripið inn í áður en hann er orðinn brjálaður með því að spyrja sakleysislega ‘you are not going to be mad with poor little me are you?’

Það kemur skýrt fram að þrátt fyrir þetta allt saman sé fráleitt að konan eigi að láta kúga sig. Hún hefur t.d. alveg rétt til að reiðast. Ekki náttúrulega út af einhverjum tittlingaskít eins og því að hann komi bara í mat þegar honum sjálfum þóknast, drekki of mikið, slái ekki lóðina eins oft og hún vill eða gangi illa um en ef hann misbýður henni alvarlega á hún að láta hann vita hvað henni finnst. Það sem skiptir máli er þó hvernig hún tjáir sig. Hún á ekki að rífast og skammast, heldur taka litlar, vel upp aldar telpur sér til fyrirmyndar. Hún getur t.d. stappað niður fæti, hnykkt til höfðinu og hnussað. Hún má líka nota ljót orð, svo framarlega sem hún gætir þess að vega ekki að karlmennsku hans. Veifiskati og rola væru þannig óviðeigandi en hún getur hinsvegar leyft sér að kalla hann óþokka (beast eða heartless man). Hún getur líka komið tilfinningum sínum til skila með innihaldslausum hótunum, t.d. um að tala aldrei við hann framar. Þegar maðurinn sér hvað hún reiðist krúttlega, mun hann ekki snúast til varnar, heldur finna hjá sér hvöt til að sleikja úr henni reiðina.

Ef hún getur ekki hugsað sér þessa aðferð, getur hún notað ‘the poor little me approach’, þ.e. að vekja vorkunn hans. Hér eru tár mjög viðeigandi. Sögð er saga konu sem vandi manninn sinn af framhjáhaldi með því að hlaupa grátandi í fang hans þegar hann kom heim frá frillunni og kveina: ‘how could you do this to poor little me?’

Ekki virðist vera reiknað með þeim möguleika að konur tjái reiði sína eins og fullorðið fólk, með því að ræða málin í alvöru, gera manninum ljóst hvar þolmörkin liggja og hvaða afleiðingar það mun hafa ef hann misbýður henni aftur og standa við það, heldur stendur valið milli þess að fá frekjukast að hætti barna (sem réttilega er ekki mælt með þar sem það leiði bara til illinda) og að nota krúttlegri barnaaðferðir. Og árangurinn lætur ekki á sér standa segja þær. Kannski það sé bara þetta sem pólitíkusar þurfa að læra til að sannfæra andstæðinga sína? Bara vera nógu krúttlegir og stappa niður fæti í stað þess að rökræða? Maður sér t.d. fyrir sér að Svandís Svavars geti sannfært bæði Samfylkinguna og minnihlutann um nauðsyn þess að hverfa frá stóriðjusefnunni, bara með því að fara í bleikan kjól og stappa niður fæti. Nú eða gráta fallega ef hnussið dugar ekki til og hóta að tala aldrei við Samfylkinguna framar.

Auðvitað er það ekki hugmyndafræði Helen Andelin sem fólk hefur í huga þegar það notar orðið dúlla en það er samt þessi ímynd sem er undirliggjandi. Ímyndin af veru sem er sæt og heillandi en um leið óábyrg og ósjálfstæð. Veru sem vekur hlýju, samúð, verndarþrá og kæti en ekki veru sem þú berð virðingu fyrir, reiðir þig á og tekur mark á. Ekki ímynd jafningja. Krútt eiga alveg á rétt á sér og meira en það. Ímynd dúllunnar er falleg og indæl þegar um er að ræða verur sem hafa ekki forsendur til að bera ábyrgð á sjálfum sér og krefjast þess að vera teknar alvarlega. Smábörn eru dúllur. Hundar og kettir geta verið krútt. Þau vekja í okkur blíðar, góðar, bráðnauðsynlegar tilfinningar og heimurinn þarf þessvegna á krúttum að halda. En um leið og við tengjum þessa ímynd fullorðinni manneskju, setjum við hana þrepi neðar í viðringarstiganum, hún verður í hugum okkar barnaleg, stundum aumkunarverð, jafnvel fyrirlitleg. Það er að verulegu leyti það sem karlremba gengur út á. Fæstir karlmenn hata konur eða telja rétt og gott að beita þær ofbeldi og kúgun. Mjúka karlremban sem lítur á konur sem krútt, eitthvað sem er alveg hægt að eiga ánægjustundir með en þarf ekki að taka mjög alvarlega, er miklu algengari en hrottinn.

Hin viti borna kona er ekki dúlla. Hún er heldur ekki neinn sérstakur trukkur. Henni dettur ekki í hug að gefa eftir rétt sinn til að safna postulínsdúkkum ef hún hefur ánægju af því, bara til þess að samræmast einhverri staðalmynd af töffara og ef hún vill aka jarðýtu þá merkir það ekkert endilega að hún geti ekki hugsað sér að nota háa hæla á árshátíðinni. Hún klæðir sig eins og henni sýnist og sinnir þeim verkefnum sem henni sýnist. Þótt hún votti karlmanni þakkæti þegar hann gerir við bílinn hennar, veit hún sjálf hvenær hún þarfnast ráða hans og hvenær hún kærir sig um aðstoð hans og álit. Hún þiggur með gleði gjafir sem gefnar eru af ást eða hlýhug en hún biður ekki um þær eins og smákrakki. Jafnvel þótt hún bindi bleikan borða í hárið á sér og tjái ást sína með því að smyrja nesti fyrir manninn sinn, merkir það ekki að hún sætti sig við að hann skilji óhreinar nærbuxur eftir á baðgólinu. Hún getur beðist afsökunar ef það á við en hún lætur engan vaða yfir sig eða komast upp með ósanngjarnar kröfur eða gagnrýni. Og ef hún reiðist gerir hún sig skiljanlega að því marki að þú missir alla löngun til að komast að því hvað gerist ef þú misbýður henni í annað sinn.

One thought on “Oooo … svo mikil dúlla

  1.  —————————————————
    Þú ert dásamleg, ég hef beðið lengi lengi eftir skirfum konu sem ég er sammála og um leiið stórhrifinn. Þakka þér fyrir þetta ljósið mitt.

    Posted by: Guðmundur Ólafsson hagfræðingur | 30.07.2010 | 11:40:41

    —————————————————

    Takk fyrir frábæra grein. Mikið er ég sammála hverju orði hjá þér. Það sem mér finnst mjög svo erfitt að sætta mig við er að um leið og ein tegund af verklagi verður ofan á þá er amast við þeim sem velur verklag eftir sínu höfði. Allt er gert til að viðkomandi breyti sér eftir fjöldanum eða þá að fundinn er einhver bás sem hinir geta sætt sig við.

    Posted by: Heiða Hafdísardóttir | 31.07.2010 | 9:39:22

    —————————————————

    Fínn pistill hjá þér.

    Posted by: Guðrún Þorleifs | 31.07.2010 | 17:14:45

    Ég get svo sem tekið undir með Lobba: þú ert dásamleg. En er þetta allt? Píkusögur? Eru þær bara tussufínar? Þú ritar lærða grein, en hvers vegna út frá sjónarhóli fórnarlambs? Ég skil ekki þennan vinkil. Hvað varð um baráttukonuna frá 2008?

    Posted by: agamemnon | 31.07.2010 | 22:52:19

    —————————————————

    Agamemnon, ég bara skil ekki hvað þú átt við með sjónarhól fórnarlambs. Ég er að benda á hugmyndirnar sem liggja á bak við ákveðna orðanotkun og skýra hversvegna ég get ekki samsamað mig þeim.

    Píkusögur hef ég bara ekki séð, nema örlítið brot í sjónvarpsþætti, svo ég get ekki tjáð mig um það verk að svo stöddu.

    Ég skil heldur ekki hvað ‘baráttukonan frá 2008’ kemur málinu við.

    Posted by: Eva | 1.08.2010 | 10:37:54

    —————————————————

    Margt gott í þessu Eva – takk.

    Posted by: Sliban | 5.08.2010 | 22:08:27

Lokað er á athugasemdir.