Áfallastreituröskun sannar ekki kynferðisbrot

images (3)

Þeir sem gagnrýndu fyrsta pistil minn í þessari röð, hafa ýmist afneitað því að nokkur hætta sé á að Íslendingar færi sönnunarbyrðina yfir á sakborning, eða borið því við að þær aðferðir sem verið er að innleiða í því skyni, séu eðillegar og sjálfsagðar. Þar ber hæst vilja til að gefa framburði meints brotaþola þyngra vægi en framburði sakbornings og ofurtrú á umsögn sálfræðinga um andlegt ástand þess sem leggur fram kæru, eða eins og einhver orðaði það:

5. Það er engin hætta á að sönnunarbyrðin lendi á herðum sakbornings, af því að ekkert mál er aðeins dæmt út frá framburði þolanda, heldur fleiri sönnunargögnum, svo sem vottorði um áfallastreituröskun.

Guðrún B. Mánadóttir, lagði öðrum fremur sérstaka áherslu á mikilvægi greiningar á áfallastreituröskun (PTSD) í kynferðisbrotamálum í svörum sínum við umfjöllun  minni, bæði á tjásukerfi DV og hér. Það kemur ekki á óvart að feministi telji PTSD greiningu mikilvæga, því erlendis hefur slík greining oft skipt sköpum þar sem sektardómar hafa fallið í kynferðisbrotamálum.

PTSD, eða áfallastreituröskun, er ástand sem talið er afleiðing af slæmum áföllum, ýmist einu áfalli eða röð áfalla. Röskunin lýsir sér m.a. í endurupplifun, sterkri tilhneigingu til að forðast aðstæður sem tengjast áfallinu, tilfinningadoða og fleiri vandamálum. Ég ætla ekki að fara ítarlega í einkennin hér en nóg lesefni er að finna á netinu. T.d. hérhér og hér.

Algengast er að þeir sem greinast með áfallastreituröskun hafi upplifað lífshættu og/eða mikið ofbeldi eða orðið vitni að dauða, slysum, ofbeldi eða öðrum  hryllilegum aðstæðum sem viðkomandi hefur enga stjórn á. Þetta er t.d. þekkt hjá hermönnum sem tóku þátt í Víetnamstríðinu og fólki sem eyddi hluta æsku sinnar í fangabúðum Nazista. Meðal þeirra aðstæðna sem valda áfallastreituröskun eru:

Stríð
Frelsissvipting
Pyntingar
Nauðgun
Hættuleg líkamsárás
Náttúruhamfarir
Slys
Eldsvoði

Það er þó langt frá því að allir sem hafa reynslu af þessum toga þjáist af áfallastreitu. Talið er að meðallíkur manna á því að verða einhverntíma á ævinni fyrir reynslu sem hefur í för með sér hættu á áfallatreituröskun séu í kringum 70%. Þrátt fyrir þetta háa hlutfall er þó lítill minnihluti eða 9-15% sem fer svo illa út úr áföllum. Töluvert er þó um að fólk sem hefur orðið fyrir áföllum ýki ástand sitt eða geri sér einkennin jafnvel upp ef það sér sér hag í því. Ætla má að um 30% þeirra sem sækja um velferðarbætur vegna PTSD, ýki ástand sitt til muna (sumar rannsóknir hafa sýnt ennþá hærra hlutfall) og ekki lægra hlutfall en 15% þeirra fanga sem greinast með PTSD eru að einhverju eða öllu leyti að gera sér einkennin upp í von um að fá betri meðferð eða hlunnindi út á það. Það er alls ekki erfitt að fá tilefnislitla greiningu, því greiningin byggir fyrst og fremst á lýsingu sjúklingsins sjálfs á ástandi sínu. Tilraunir á háskólastúdentum benda til þess að á bilinu 80%-95% þeirra sem þekkja einkennin, geti auðveldlega gert sér upp áfallastreituröskun. Sérfræðingar geta greint leikarana frá með því að leggja fyrir þá próf en ég hef ekki fundið heimildir um að það hafi verið gert í kynferðisbrotamálum þar sem brotaþoli greinist með PTSD. Ef einhver finnur slíka heimild þætti mér vænt um að fá ábendingu.

(Hér eru tvær áhugaverðar heimildir um rannsóknir á uppgerðaráfallastreitu:
Investigating Differences in Truthful and Fabricated Symptoms of Traumatic Stress over Time
A Comparative Analysis of MMPI-2 Malingering Detection Models Among Inmates)

Ég held að flestir geti verið sammála um að andlegt ástand fólks sem orðið hefur fyrir kynferðisglæp skipti töluverðu máli og að greining á PTSD geti rennt stoðum undir frásögn brotaþola. Það er þó stórkostlega vafasamt að nota slíka greiningu sem sönnunargagn í sjálfu sér, en það hefur sannarlega verið gert á síðustu árum, bæði í Bretlandi og á Norðurlöndunum.

Áhugaverðasta heimild sem ég hef enn sem komið er náð að skoða um vafasama dóma í kynferðisbrotamálum er þessi ritgerð Max Scharnberg. Í ritgerðinni er fjallað um hlut endurheimtra minninga í Södertälje- og Umeå-málunum, athyglisverðum kynferðisbrota- og morðmálum sem komu upp í Svíþjóð á tíunda áratugnum. Södertälje- og Umeå-málin sem eru um margt lík. Ungar stúlkur ásökuðu foreldra sína og fleira fólk um að hafa beitt sig margra ára kynferðisofbeldi ásamt því að níðast á fleiri börnum. Satanísk fórnarritúöl og mannát komu einnig við sögu. Stærsti munurinn á þessum tveimur málum var sá að stúlkan í Umeå ásakaði fjölda áhrifamanna um kynferðisbrot og mannát en stúlkan í Södertälje bar aðeins sakir á einn þekktan mann.

Í Umeå-málinu var faðir stúlkunnar dæmdur í tíu ára fangelsi. Síðar fór málið fyrir áfrýjunardómstól sem komst að þeirri niðurstöðu að aldrei hefðu nein haldbær sönnunargögn verið lögð fram. Dómnum hnekkt og faðirinn sýknaður. Foreldrarnir í Södertälje-málinu voru ekki svo heppnir. Þrátt fyrir skort á sönnunargögnum og verulega ótrúverðugan framburð stúlkunnar, var faðir hennar dæmdur í tíu ára fangelsi og móðir hennar fékk fimm ára dóm. Málið var síðar endurupptekið fyrir áfrýjunardómstól, móðirin var þá sýknuð en dómurinn yfir föðurnum mildaður í fimm ára fangelsi. Meirihluti dómara taldi þó að þau væru sek um kynferðisbrot gagnvart stúlkunni. Foreldrar stúlkunnar í Södertälje hafa ekki fengið málið upptekið fyrir Hæstarétti. Móðir hennar er heyrnarlaus, faðirinn ómenntaður innflytjandi sem hafði verið atvinnulaus til langs tíma þegar málið kom upp. Ekki er ólíklegt að þau hafi hreinlega verið verr í stakk búin til þess að berjast fyrir endurupptöku en faðir Umeå stúlkunnar. (Dálítið er komið inn á þessi mál í fyrsta hluta þessarar áhugaverðu heimildamyndar.)

Hvorki í Södertälje- né í Umeå-málinu, fundust nein áþreifanleg sönnunargögn. Ekkert barnslík, engar tilkynningar um börn sem hefðu horfið og staðirnir þar sem glæpirnir áttu að hafa farið fram samræmdust ekki lýsingum stúlkanna á þeim. Framburður stúlkannna var í báðum tilvikum aðalsönnunargagnið en minningar þeirra um hina ótrúverðugu atburði komu ekki fram fyrr en eftir langa meðferð hjá sálfræðingum sem aðstoðuðu þær við að endurheimta „bældar minningar“.

Kenningin um endurheimt bældra minninga hefur sætt harðri gagnrýni og ég vona að sú umfjöllun dugi til þess að hvorki íslenskir sálfræðingar né dómarar telji slíkan framburð eiga erindi í réttarsal. Ég hef meiri áhyggjur af greiningu á PTSD.  Annað veigamikið „sönnunargagn“ í Södertälje-málinu var einmitt staðfesting meðferðaraðila á þeim andlega skaða sem stúlkan hefði orðið fyrir, þ.á.m. greindi einn sálfræðingur hana með áfallastreituröskun. Lýsingar á ástandi Umeå-stúlkunnar koma einnig heim og saman við einkenni áfallastreituröskunar enda þótt sjúkleika hennar hafi ekki verið gefið heitið PTSD.  Max Scharnberg, höfundur ritgerðarinnar sem ég vísaði í hér að ofan, kemst þannig að orði um notkun PTSD greiningar í Svíþjóð:

I have been unable to find any Swedish trial before 1994 in which the PTSD pseudo-theory has been applied. But since then its frequency has steadily grown.

 

It is applied in the following way. When the evidence is particularly weak or altogether non-existent, a specifically selected psychiatrist may have a brief conversation with the injured party. In turn he or she will testify in court that the injured party suffers from PTSD, and that PTSD is a frequent effect of sexual assault. During the testimony the psychiatrist may reveal his or her minimal knowledge of the thoughts, feelings, situation and personality of the injured party. The psychiatrist may not even know that the injured party has had all the symptoms that supposedly proved PTSD more than ten years before the alleged sexual assaults. But judges will seldom perceive any weakness in the testimony of a psychiatrist who is allied with the prosecution.

 

Í þessum tveimur málum sem og mörgum öðrum kynferðisbrotamálum sem komu upp í Svíþjóð á árunum 1990-2009 var sönnunarbyrðinni sannarlega snúið við. Tveimur nauðgunardómum var þó snúið í Hæstarétti Svíþjóðar árið 2009, með þeim rökum að þrátt fyrir trúverðugan framburð meints þolanda, megi ekki sakfella mann nema áþreifanleg sönnunargögn komi fram og sömu reglur gildi um kynferðisbrotamál og önnur (sjá sérstaklega bls. 3) Með þessum dómum er viðurkennt að í reynd hafi sönnunarbyrði verið færð yfir á sakborning, bæði í undirrétti og fyrir áfrýjunardómstól. (Sjá einnig þennan dóm.)

Í íslenskum dómsmálum síðustu ára, ber töluvert á því að meðal sönnunargagna sé  PTSD greining eða önnur umsögn sálfræðings um ástand brotaþola í kjölfar nauðgunar. Það er bara fínt. Þar sem áverkavottorð, tölvupóstur, símaskýrslur, frásögn vitna eða önnur gögn renna stoðum undir trúverðugleika brotaþola en draga jafnframt úr trúverðugleika sakbornings, er sjálfsagt að benda á umsögn sálfræðings líka. En að gera umsögn sálfræðings um ástand manneskju sem hann hafði aldrei hitt fyrr en eftir að atvikið átti sér stað að veigamiklu sönnunargagni í sakamáli, það er ekki í lagi.

Sálfræðingur getur borið um hvaða ástandi skjólstæðingur hans lýsir sjálfur.  Góður sálfræðingur gæti jafnvel skorið úr um trúverðugleika þeirra lýsinga með því að skoða lýsingar skjólstæðings síns gagnrýnum augum. Hann getur hinsvegar ekki dæmt um það sem kann að hafa gerst í samskiptum tveggja mannvera þar sem hann sjálfur var víðs fjarri enda er það ekki hlutverk hans. Hann getur heldur ekki skorið úr um það hvort þau einkenni sem sjúklingur lýsir eru bein afleiðing af tilteknum atburði. Vel er hugsanlegt að sjúklingurinn hafi þjáðst af einhverjum eða öllum einkennum áfallastreituröskunar um langa hríð, áður en nokkrum datt í hug að tengja það við kynferðisofbeldi. Einnig er hugsanlegt að mikil vanlíðan stafi af einhverju allt öðru. Hún gæti t.d. tengst því áfalli sem ung stúlka verður fyrir þegar hún áttar sig á því að það sem hófst sem ofurlitlar ýkjur er orðið að lygi sem hefur haft í för með sér dómsmál sem hún var ekki búin að sjá fyrir.

Því já, það er nú einmitt það sem hefur gerst í mörgum þeirra mála þar sem dómar hafa fallið vegna falskra sakargifta. Það er ekki endilega hreinræktuð illska sem fær konur til að klína áburði á saklausa menn. Konur sem hafa játað á sig rangar sakargiftir hafa t.d. skýrt hegun sína á þann veg að þeim hafi liðið illa vegna slæmrar kynlífsreynslu og að upphaflega hafi sagan bara átt að vera ákall um samúð og athygli. Stundum hefur konan þjáðst af samviskubiti yfir kynhegðun sinni og áhyggjum af dómum annarra yfir sér, eða hún hefur upplifað svik og andstyggilegheit af hálfu mannsins sem hún ber sökum. Kona sem ber rangar sakir á mann, ætlar sér yfirleitt alls ekki að koma saklausum manni í fangelsi, heldur bara að fá maka sinn eða aðra nákomna til að trúa því að hún hafi lent í háska eða í  aðstæðum sem hún réði ekki við. En lygin vex og það er mín tilgáta að þegar við bætast dramatískar útleggingar  fjölskyldu, vina og sjálfskipaðra bjargvætta á því sem gerðist, auk tilheyrandi fullyrðinga um glataða æsku, óyfirstíganlegra erfiðleika og jafnvel sálarmorð, finni hún sig knúna til að leggja fram kæru.

Og þar með erum við komin að aðalrökunum fyrir því að alls ekki megi sporna gegn þeirri stefnu að æ vægari kröfur séu gerðar um sönnunargögn í kynferðisbrotamálum:

6. Með því að krefjast sannana er verið að gera lítið úr framburði fórnarlambsins og fæla konur frá því að kæra kynferðisofbeldi.

Ég ætla ekki að eyða miklu púðri í að svara þessu. Bendi bara þeim sem telja að framburður þess sem ásakar einhvern um kynferðisglæp eigi að teljast óbriðgull, á að velta því fyrir sér hversvegna fólk þurfi að leggja fram haldbærari sannanir en eigin vitnisburð í öllum öðrum málaflokkum. Er það ósanngjörn krafa að sá sem kærir annan mann fyrir líkamsárás, þjófnað, vörusvik, meiðyrði, læknamistök, skemmdarverk, ritstuld, fjárdrátt, dreifingu fíkniefna eða hvað annað sem kann að teljast saknæmt, leggi fram haldbærari gögn en eigin vitnisburð? Ef ekki, hversvegna í ósköpunum ætti framburður þolanda þá að hafa meira vægi í kynferðisbrotamálum en öðrum flokkum?

Svíar hafa komist að þeirri niðurstöðu að sú stefna þeirra að hnika sönnunarbyrðinni yfir á sakborning hafi verið mistök. Mér sýnist stundum eins og  Íslendingum virðist í mun að gera öll sömu mistök og Svíar. Íslensk stjórnvöld fetuðu þannig í fótspor Svía með glæpvæðingu vændiskaupa og virðist lítil von til þess að fallið  verði frá þeirri vitleysu fyrr en Svíar sjá að sér. Við erum einnig að feta í fótspor þeirra með vægari sönnunarkröfum í kynferðisbrotamálum og mjög þungum dómum í málum þar sem enginn líkamlegur skaði hefur orðið. Kannski ættum við frekar að horfa til þess að Svíar eru nú að verða afhuga þeirri hugmynd að hnika sönnunarbyrðinni. Með því mætti ekki aðeins forða saklausum frá sakfellingu, heldur einnig íslensku réttarkerfi frá því að fremja dómsmorð.

Fyrri pistlar um öfuga sönnunarbyrði og vafasöm sönnunargögn, sá nýjasti efst:
Jú, öfug sönnunarbyrði viðgengst meðal vestrænna þjóða 
Gefum nauðgaranum rödd
Engin hætta á að sönnunarbyrðinni verði snúið
Hvað á að gera við svona menn?
Hvað má það kosta?

Deildu færslunni

Share to Facebook