28. Femínistar vilja ráða því hvað skuli teljast valdeflandi

28

Fegurðardrottning segist vera femínisti. Einhverntíma sagðist Magga pjattrófa líka vera feministi. Ég hef lesið viðtöl við kynlífsþjóna sem segjast vera femínistar. Þessar konur telja sig hafa sama rétt og karlar, vilja standa körlum jafnfætis og telja sig standa körlum jafnfætis, ekki þrátt fyrir lífsstíl sinn heldur vegna hans. Ef feministar hefðu ekki stolið hugtakinu gæti ég kallað mig feminista á sömu forsendum.

Valdefling er orð sem femínistum er hugleikið. Hugmyndin er sú að konur hafi þörf fyrir sjálfsstyrkingu vegna kynferðis síns. Ég held að það eigi við um margt fólk af báðum kynjum að þurfa á valdeflingu að halda og krossa fingur fyrir hvern þann einstakling sem með heiðarlegum aðferðum bætir sjálfsmynd sína og skapar sér aðstæður til þess að njóta góðs af styrkleikum sínum. Mér þykja fegurðarsamkeppnir „hálfglataðar“ en ef þær eru valdeflandi fyrir einhverja aðra þá er það bara hið besta mál, það er enginn sem neyðir mig til að horfa á þær.

Femínistar vilja hinsvegar fá að gefa út einhverskonar fyrirmæli um það hvað skuli teljast valdeflandi. Það skal teljast valdeflandi að brjótast til frama í stjórnmálum eða innan stórfyrirtækis. Það skal hinsvegar ekki teljast valdeflandi fyrir konu að vera á framfæri maka síns við að gera það sem henni bara sýnist. Það á að vera valdeflandi að gefa skít í hugmyndir samfélagsins um að offita sé óæskileg. Það má aftur á móti ekki teljast valdeflandi að vekja aðdáun fyrir það útlit sem tískubransinn gerir út á. Það á að vera valdeflandi að skilgreina það sem nauðgun ef kona vaknar í vitlausu rúmi eftir hrottalegt fyllerí. Það má hinsvegar ekki teljast valdeflandi að fara heim með tuttuguþúsundkall í vasanum og gleyma gaurnum.

Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að við ættum að hafna femínisma. Hann er ekkert annað en eitt kennivaldið enn.

Deildu færslunni

Share to Facebook