Foreldrar áhugalausir um skólastarf

Það er greinilegt að foreldrum þykja íþróttirnar meira spennandi en skólastarfið og kannski þarf frekar að spyrja hvernig standi á því en að segja foreldrunum hverju þeir eigi að hafa áhuga á.

Ég held að geti verið fleiri og flóknari skýringar á dræmri mætingu foreldra en sú að þeim finnist skóli vera aukaatriði. Mér dettur í hug eitt snjallræði, að spyrja foreldrana hversvegna þeir hafi ekki áhuga í stað þess að skipa þeim að sýna meiri áhuga.

Starfshættir grunnskóla skulu mótast af trúfrelsi

Nokkrir þingmenn vilja að Alþingi álykti um mikilvægi þess að opinberir skólar vandi til fræðslu um hinn kristna menningararf þjóðarinnar, í þeim tilgangi að stuðlað verði að auknum skilningi á þeirri arfleifð.

Nú minnist ég þess ekki að nokkurntíma hafi komið frá Alþingi neitt sem gefur skólum afslátt af vöndun umfjöllunar sinnar í nokkurri grein. Almennt er gengið út frá því sem sjálfsögðu að skólastarf eigi að vera vandað. Í raun gengur þessi tillaga heldur ekkert út á það að skólar eigi að vanda kristinifræðslu sína, heldur að kirkjan eigi að hafa frjálsan aðgang að skólum.

Spurt er: Ef kynning á hvers konar öðru æskulýðsstarfi, t.d. íþróttafélaga, er heimil, hvers vegna þá ekki kynning á kirkjulegu starfi?

Það er hálfömurlegt að þeir sem telja sig hæfa til þess að hafa vit fyrir þorra þjóðarinnar skuli virkilega þurfa að spyrja svona bjánalega en það er allt í lagi, Norna frænka býr yfir ótrúlegri þolinmæði gagnvart heimskingjum og er alveg tilbúin til að svara. Ég hef svarað þessu áður hér. Læt það duga í bili en ef einhver hefur frekari spurningar um þetta efni eftir lesturinn, skal ég með ánægju ausa af brunni visku minnar.

En leiðinlegt

Einhver Gunnar Sveinsson skrifar í sunnudagsmoggann í tilefni af úrfellingu kristilegs siðgæðis úr námskrá grunnskólanna. segir m.a.

Þótt samstarf við skólana sé á þeirra forsendum eins og rætt er um getur Þjóðkirkjan eða biskup að mínu áliti aldrei samþykkt að fella niður að starfshættir skólanna mótist af kristilegu siðgæði.

Æjæ. Getur Þjóðkirkjan ekki samþykkt það? Það var nú leitt en því miður, Þjóðkirkjan ræður bara ekki rassgati um skólastarf í landinu. Þjóðkirkjan ræður reyndar ekki einu eða neinu fyrir utan sitt eigið starf og kann ég Siðmennt og Vantrúarmönnum bestu þakkir fyrir að opna augu Þorgerðar Katrínar og almennings í landinu fyrir því.

Stuðningur eða meðferð?

images-1Á vef kirkjunnar kemur fram að Vinaleið, „kærleiksþjónusta í grunnskólum“ sé ekki meðferðarstarf heldur stuðningsviðtöl og sálgæsla. Jafnframt kemur fram að dæmi séu um að nemendur sæki slík sálgæsluviðtöl 6 tíma á viku. Ég mætti um tíma í vikuleg viðtöl hjá sálfræðingi og það var kallað meðferð. Ég hef ekki fundið útskýringu kærleiksþjónanna á muninum á stuðningi og meðferð. Getur einhver sagt mér í hverju munurinn liggur?

Slugsar í HÍ

images-3Í Mogganum í gær, færir Eiríkur Steingrímsson m.a. þau rök fyrir því að taka upp skólagjöld við Háskóla Íslands, að margir nemendur slugsi í náminu og mæti illa í tíma.

Nú leikur mér forvitni á því hvort slugsaháttur nemenda í háskólum sem leggja skólagjöld á stúdenta hefur verið rannsakaður, og ef svo er, hvort skólagjöld séu trygging gegn slíkri hegðun.

“Við vorum nú ekki í skóla nema fram að sauðburði”

Óttalega þykja mér það heimskuleg rök með skerðingu framhaldsnáms að þrátt fyrir færri kennslustundir í grunnskólum hafi mín kynslóð og þær sem á undan komu, samt sem áður komist til manns.

Faðir minn lauk sinni skólagöngu um 12 ára aldur og komst þó til manns. Ekki af því að kennslan í barnaskólanum hans hafi verið svo frábær, heldur þrátt fyrir hana. Ég leyfi mér að fullyrða að þótt pabbi hafi ekki efast um eigin manndóm, hvarflaði aldrei að honum að taka okkur systurnar úr skóla og senda okkur á sjóinn áður en við urðum mannbærar.

Þar fyrir utan sé ég ekkert sérstakt sem bendir til þess að íslenskur almúgi sé svo vel að sér að ástæða sé til að fara varlega í frekari uppfræðslu.