Sósan

Hvar nema á Íslandi getur maður keypt ost sem hefur þann eiginleika að ef maður setur bita af honum í sósuna, verður potturinn eins og maður hafi brætt í honum uppþvottahanska?

Ég lendi bara ekkert í þessu í Glasgow, hvort sem ég er með mikinn eða lítinn hita.

Skrópaþinglingur

Ég hef oft verið spurð hvort mér hafi aldrei dottið í hug að bjóða mig fram til þingsetu. Fyrir utan efasemdir mínar um ágæti þessarar stofnunar gæti ég ekki hugsað mér að eyða meirihluta dagsins í fundasetur. En fyrst þingmenn þurfa ekkert að mæta í vinnuna þá ætti ég kannski að íhuga það? Hversu léleg þarf mætingin að vera til þess að skrópagemlingar á þingi þurfi að gefa fjölmiðlum skýringar?

Rányrkja til forna

Ragnar minnist hér m.a. á þá sérstöðu Íslands, að hafa reynt að sporna við ofnýtingu auðlinda, strax á Grágásartímanum.

Þeir sem vilja kynna sér forsögu þess, ættu að lesa hina bráðskemmtilegu bók Bergsveins Birgissonar; Leitin að svarta víkingum. Bergsveinn segir m.a. frá fyrsta eignarnámi Íslandssögunnar og setur fram þá áhugaverðu kenningu að það eignarnám hafi verið viðbrögð við yfirgangi fyrsta kapítalistans á Íslandi sem lagði undir sig ákveðna auðlind og gekk svo hart fram í rányrkjunni að varanlegur skaði hlaust af. Við erum síst komin af norrænum sjóræningjum en mun fremur af útrásarvíkingum, flóttamönnum og þrælum.

Látinn

Flóttamaðurinn sem kveikti í sér er látinn. Hvað ætli þurfi mörg svona tilvik til þess að ríkisstjórnin (við erum enn með ríkisstjórn) komist að þeirri niðurstöðu að það sé eitthvað athugavert við stefnu hennar í útlendingamálum?

Undarleg skólastefna

Jón Gnarr vill að bólusetningar verði forsenda fyrir skólavist.

Það er nú reyndar skólaskylda á Íslandi svo ef Gnarrinn á líka við grunnskólana þá þyrftu sveitarfélögin líklega að bjóða upp á sérskóla fyrir óbólusett börn. Það væri nú áhugavert að heyra álit MDE á þeirri hugmynd að synja börnum um skólavist eða reka annarskonar aðskilnaðarstefnu. Nei ég er ekki að mæla því bót að foreldarar láti ekki bólusetja börn en Jón þarf að hugsa þetta betur.

Enn um nefnd um dómarastörf

Ætlar enginn blaðamaður að spyrja Nefnd um dómarastörf, hvað þurfi eiginlega til þess að hún synji dómara um heimild til að taka að sér aukastarf eða eiga hluti í félögum? Jafngildir tilkynning því að heimild sé fengin? Hefur nefndin svomikið sem tekið það fyrir á fundi hversu viðeigandi það sé að dómarar eigi tugi milljóna í hlutabréfum? Þurfa dómarar að reka smálánafyrirtæki eða eitthvað álíka til þess að nefndin sjái ástæðu til að segja a-hemm …?

Gögnin í skókassa?

Formaður nefndar um dómararstörf segir að gögnin í máli Markúsar Sigurbjörnssonar hafi hafnað heima hjá fyrrverandi formanni

Vonandi sér næsti innanríkisráðherra til þess að nefnd um dómarastörf fái skúffu undir dótið sitt. Það er bara ekki traustvekjandi að gögn slíkrar nefndar skuli vera geymd í skókassa undir rúmi formannsins.

Hvað ætli sé annars mikið um fyrirkomulag af þessu tagi í stjórnsýslunni og dómsýslunni? Geyma hinar ýmsu úrskurðarnefndir skjölin sín í kössum úti um allan bæ? Hvað með nefndir Alþingis? Eru þeirra gögn líka í fórum formanna nefndanna?

Hvernig væri annars að banni við aukastörfum og félagaeign dómara væri framfylgt og undantekningar skýrðar þröngt? Hvað ef þeir sem þurfa hærri tekjur en einföld laun dómara yrðu bara að vinna fyrir einhvern annan en ríkið? Eins og er eru flestir dómarar með ýmis aukastörf. Sem er enganveginn í lagi því Hæstaréttardómarar eru að dæma að jafnaði í 2 málum á dag og segir sig sjálft að það er varla vandað til verka þegar álagið er svo mikið.

Dómarar eru á ágætislaunum og þurfa ekki að búa í helli þótt þeir standi ekki í verðbréfabraski. Dómarar eiga að fá leyfi fyrir mikilli hlutabréfaeign, þannig eru nú bara reglurnar. Og Nefnd um dómarastörf ætti að framfylgja þeim.

 

Uppfært 6. des

„… en mér finnst þú sko svolítið gera mikið úr mikilvægi þessarar nefndar [um dómarastörf] og þessarar skráningar, fyrir hæfi dómara.“ Sagði formaður Dómarafélags Íslands, í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun.