Kærurnar á hendur Útvarpi Sögu

Ætli þeir sem kærðu Sögu-liðið reikni með þeim möguleika að sýknudómar falli? Og ef svo færi, getur verið að sakborningar og aðrir af þeirra sauðahúsi túlki það þannig að þeim sé óhætt að ganga lengra?

Mér finnst gjörsamlega fráleitt að kæra þetta og miðað við dómaframkvæmd Hæstaréttar og MDE er harla ólíklegt að þessi ummæli verði flokkuð sem hatursorðræða. Enda yrði þá illa komið fyrir tjáingarfrelsinu. Mér finnst líklegast að hugmyndin sé bara sú að láta reyna á þetta. Það er ekki hlutverk dómstóla að gefa lögfræðilegt álit án þess að tiltekið mál sé til úrlausnar svo það þarf að draga einhvern fyrir dóm.

Ég tek fram að mér finnst Útvarp Saga fullkomlega viðbjóðsleg útvarpsstöð. Þetta er fyrirtæki sem er augljóslega rekið með því markmiði að vera vettvangur fyrir kynþáttahatur og niðingsskap gagnvart minnihlutahópum. En það réttlætir nú samt ekki að fólk sé dregið fyrr dóm fyrir það eitt að vera fyrirlitlegir asnar.

Fjórflokksstjórn?

Fjórflokksríkisstjórnin verður æði. Sjálfstæðisflokkurinn fær að halda áfram að mylja undir útgerðina og einkavæða smá hér og smá þar. Framsókn fær að halda áfram að mylja undir Bændasamtökin og níðast á hælisleitendum. Samfó fær smáaura til að hækka niðurgreiðslur á skólamáltíðum og og fjölga reiðhjólastígum og VG fá aukið svigrúm til að refsa fólki fólk fyrir vondar skoðanir og troða kynjafræðingum í nokkrar stöður til viðbótar #allir_vinna

Lýðræði

Einveldi er skilvirkt – en óréttlátt. Upplýst einveldi er þúsund sinnum skárra en heimskt einveldi en samt mjög vont. Lýðræði er að mörgu leyti réttlátt, en það gengur ekki almennilega upp. Lýðræði er skársta fyrirkomulag sem við þekkjum en það er samt dálítið vont. Kannski væri upplýst lýðræði málið? En hvernig í fjáranum verður því komið á?

Umræður hér

Stjórn í myndun

Ætli það verði ekki Silfurskeiðabandalagið aftur, með trójuhestinn til stuðnings. Engar skattahækkanir nema á vesalinga, meiri þensla – ekkert stopp – og annað hrun. Því miður bitnar það ekki á þeim sem helst eiga það skilið.

Okkar útfærsla á lýðræði er greinilega ekki málið. Við verðum að fara að endurskoða það.

Í ólestri

Aðalnámskrá grunnskólanna er full af frösum um lýðræði, sjálfbærni, jafnrétti og fleiri gildi sem er ekki hægt að kenna nema með því að lifa eftir þeim. Þar er hinsvegar sáralítil áhersla á lestur.

Kennarar mótmæla því að áherslan á lestur sé lítil enda sé hún grunnþáttur menntunar skv aðalnámskrá. Ojæja. Einn af sex „grunnþáttum“ og sá eini sem er hægt að mæla. Ég held reyndar að lestrarkunnátta sé nauðsynleg – ennþá – en hvaða Guð ákvað að 300 orð á mínútu væri hæfilegt?

Ef sá hinn sami getur gert okkur öll sjálfbær og heilbrigð og lýðræðiseitthvað og allt það, þá skal ég trúa því að hann geti lika gert okkur hraðlæs og hamingjusöm. En á meðan ekkert bendir til þess að skólarnir skili af sér fólki sem er skrár innrætt en fyrri kynslóðir, þá gef ég ekkert fyrir svona markmiðaræpu, hvort heldur markmiðin varða lestur eða göfgi mannsandans.

Ef amma mín hefði verið Óttar

Amma mín sáluga sem var dóttir útgerðarmanns, flokksbundinn Sjálfstæðismaður og hlustaði aldrei á neitt ferskara en Álftagerðisbræður, var nær því að vera pönkari en Óttarr Proppé.

Fyrir utan það að vera yfirlýst Sjálfstæðiskona var hún fyrirmyndar húsmóðir og kona afa míns sáluga sem var kommúnisti og áskrifandi að Þjóðviljanum.

Hún lét engan segja sér fyrir verkum og afi hefði ekki einu sinni reynt það. Ef hún hefði verið í sporum Óttars hefði hún nýtt sér stöðuna til fulls, tekið Sjálfstæðisflokkinn til bæna og gerst aftursætisráðherra í fjámálaráðuneytinu.

(Hún hefði líka sent Óttarr í klippingu en það er kemur þessu máli ekki við.)