Launkofinn

Ég gekk sem barn um grýttan fjallaveg
Í gjótu fann ég yfirgefinn kofa
Og þangað enn ég þunga byrði dreg
Í þagnarinnar faðmi til að sofa.

Því ég er eins og jarðarinnar grös
og jafnvel tímans mosabreiður héla
í launkofanum liggja brotin glös
sem lærði ég í barnæsku að fela

og enginn getur öðrum manni breytt
né annars gler úr launkofanum borið
þó held ég kannski að hönd þín gæti leitt
huldupiltinn þaðan, út í vorið.

 

Það eru til þrjú lög við þennan texta. Einn eftir Óttar Hrafn Óttarsson, annar eftir Björn Margeir Sigurjónsson og sá síðasti eftir Begga bróður minn.  Ekki veit ég til þess að nokkurt þeirra hafi verið flutt opinberlega. Lagið hans Begga er með millistefi og ég bætti eftirfarandi við til að falla að því.

#Fljótt
nótt,
hjúpar ofirhljótt
þá sem eiga sorgir eða ást í meinum.
Hlær
blær,
á meðan mosinn grær
yfir gjóturnar sem gistum við í leynum.#

Jólasálmur

Mjöllin sem bómull og brátt koma jól
og borgirnar ljósadýrð skarta
til merkis um hátíð og hækkandi sól
hve hlýnar í sál þér með vorinu bjarta.
Hver dagur er skammur og dimmur sem kvöld
en desemberstjörnurnar minna
á silfraðar kúlur við satinblá tjöld
þá sakna ég augnanna þinna.

Ef óvættir vekja þér angist og beyg
mun engill minn hafa á þér gætur
ef skjár þinn er freðinn af frostrósasveig
ég feginn skal kynda þinn arinn um nætur.
Ég sker þér í laufabrauð skammdegissól
sem skín þér um veturna svarta
með óskum um gæfu og gleðileg jól
ég gef þér að lokum mitt hjarta.

Textinn var skrifaður við lag eftir Óttar Hrafn Óttarsson en það hefur aldrei verið notað. Beggi bróðir minn samdi síðar lag við þennan texta. Það lag hefur mér vitanlega aldrei verið flutt opinberlega heldur.