Kastali Drottningarinnar

Kastali minn stendur á hæðinni.
Ljós í efsta turnglugga
og úlfar varna óboðnum inngöngu.
Gerði þyrnirósa umkringir.
Flýgur hrafn yfir.

Silkiklædd tek ég á móti þér
með veldissprotann reiddan til höggs,
dyngja mín tjölduð flauelsdúk
er þú krýpur mér að fótum.
Meðan þú dvelur hlekkjaður í turni mínum
og hlustar á hringlið í keðjunum
grunar þig síst
að bak við virkisvegginn
blakti veruleikinn
strengdur yfir snúru í formi Hagkaupsbols.

Sjálfsköðun

Hver velur slíkt hlutskipti?

Setja sig í lífshættu
til að handleika blóðkaldar hræætur.
Koma heim með slímkennda ólykt
loðandi við húð þína og fatnað
svo börn þín hrökklast frá.

Selja öðrum afnot af skrokk sínum
og eftirláta hluta ágóðans
í skiptum fyrir aðstöðu og vernd,
og fylliríið í kringum þetta, Drottinn minn dýri.

Hver myndi velja sér slíkt hlutskipti?
Var það fjárhagsleg neyð sem rak þig

eða sýður þér í æðum sjómannsblóð?