Róló

Halda áfram að lesa

Gagnvirkt ljóð í varnarhætti

Þetta ljóð þyrfti eiginlega að setja upp í tölvuforriti svo að það skili sér almennilega. Þetta er gagnvirkt ljóð, þ.e.a.s. lesandinn getur ráðið nokkru um það hvernig ljóðið verður. Ég sé fyrir mér að hægt verði að velja á milli nokkurra orða með því að smella á grænan eða gulan valkost. Ég set hér í sviga það sem er gult en skástrik utan um það sem er grænt. Þetta er samt svindl svona, vegna þess að á réttu formi á lesandinn ekki að geta séð valkostina áður en hann velur, heldur aðeins liti. Halda áfram að lesa

—  og smýgur

Mjásupjása mjúkum þófum aftur,
smogin undir augnlokin
og sveiflar rófu
ó Guð, þinn náðarkraftur
veri vörn heilakvörn.

Undarlegt hve árans fjárans kvikindið fer hljótt.
Eins og ljósið langt og mjótt
hún smýgur
undir skeljarinnvolsið
og mígur
utan í heiladingulinn
arma harmavingulinn, minn, minn.
Sama, gamla, valda, kvalda staðinn til að merkja
svo mig verki.

Og bogalogaægiflogaaugun toga lengi
í sprengiþanda tengistrengi
drengs sem aldrei fengist til að hengja
sínar eigin skæðu mæðulæðuslæður
út á þvottasnúru.

Spegill spegill …

Himingeimstunglkringlukastarinn varpaði
hnattljósi úr augntóttum festingar
niður á bitfreðna jörð.
Féll það sem birta
á blásvellað Lagarfljót auga míns,
vetur er syrti minn hug.

Sprungu mér dimmblóm úr augnsteinum,
frostrósarsveigum, héluðum, lögðu þeir
gluggann minn, gegnsæja, þögla.
Speglaði hann næturlangt mynd mína synduga, ljóta.

Starði ég furðulostin í frostgárað glerið
og augnspjóti í speglinn kastaði
fast
svo bryti ég sundur í flýti þá óyndismynd.

Horfði eg þögul í Lagarfljótsljósspegil brotinn.
Beindi hann fleygðari egg
að bláma míns glugga.
Risti á ósonlag augans,
vakir á ís.

Ljóð handa Megasi

Ást, þjást, brást,
„afsakið mig meðan ég æli“

Hvort það var hnífstunga í bakið
eða blaut tuska í andlitið
bíttar ekki baun.
Aðalmálið að það sé
myndskreytt
umbreytt
afleitt.

Leitt af hinu afleita
fráleita
háleita

og ég sem leitaði hátt og lágt
gerði elskhugann sjálfan út af örk
að leita þín við ystu mörk
ljóðaheims
andlegs seims
eyðimörk.

Og kannski er það ekki bara
fatamorgana á flæðiskerinu
ég held hún sé loksins fundin
þessi húfa sem hæfir derinu.