Aaaaaggh!

„Líklega er hann atvinnulaus og skammast sín fyrir það,“ hugsaði ég. Svo velti ég því ekki fyrir mér meir enda svosem ekki eins og ég sé ástfangin.

Hann hafði lagt hart að mér að hitta sig síðast þegar ég var á Íslandi. Ég var margsinnis búin að spyrja um erindið en hann virtist bara langa að hitta mig af því að ég er svo æðisleg eða eitthvað í þá veruna. Talaði um hvað það væri ógurlega gaman að fara í gönguferðir. Sjálfri finnst mér svosem alveg notalegt að rölta á milli staða í rólegheitum í góðu (mjög góðu) veðri en ég er engin fjallageit og hef aldrei fengið neitt sérstakt kikk út úr því að setja annan fótinn fram fyrir hinn. Mér skilst að það eigi að vera svo hressandi að fara í labbitúr en ég hef aldrei fundið hvað er svona eftirsóknarvert við það að vera „hress“. Það er svosem ekkert mál að draga mig út, mér finnst yfirleitt ekkert erfitt eða leiðinlegt að ganga en ég finn ekki þessa þörf og ef ég fer út að ganga af eigin hvötum án þess að eiga erindi eitthvert, þá er það til að losa hugann frá tölvunni en ekki til að hressast. Allavega, hann áttaði sig á því að ég væri komin til landsins aftur og bað mig enn einu sinni að hitta sig. Ég sló til. Veðurblíðan var ótrúleg og ég gat svosem alveg eins notið hennar með því að ganga spöl við hliðina á skemmtilegum manni eins og að sitja úti á svölum.

Ég vissi ekki mikið um hann. Bara að hann er fornleifafræðingur og mér skildist að hann starfaði sem leiðsögumaður. Fljótlega kom þó í ljós að það er bara hlutastarf og þegar ég spurði hvað annað hann gerði, sneri hann talinu fimlega að öðru. Ég tók alveg eftir því en hann langaði greinilega ekkert sérstaklega að ræða það og ekki kom mér það við.

Það hefur ekkert verið á milli okkar nema þetta, kvöldgöngur og svo einn kaffibolli í lokin. Hann segir ekki mikið um sjálfan sig en því meira um sögu lands og þjóðar, umhverfisvernd, jarðlög, náttúruperlur og forminjar. Virðist þekkja hverja einustu þúfu á landinu og hefur gaman af að segja sögur, hentar mér vel. Og veðrið alltaf gott. Menn sem vilja hitta mig eiga ýmist erindi við mig, vilja fá mig í pólitík, bera undir mig samsæriskenningar eða stinga að mér einhverjum hugmyndum að flóknum og erfiðum verkefnum sem ég á svo að ýta í framkvæmd, nú eða þá að viðkomandi er haldinn einhverju blæti gagnvart konum sem rífa kjaft og halda að ef kona notar orðið píka á blogginu sínu, þá sé það merki um að hún vilji láta sem flesta ókunnuga menn ríða sér. En þessi reynir ekki einu sinni við mig. Ég var farin að halda að honum þætti bara svona ofboðslega gaman að hafa einhvern með sér sem finnst gaman að hlusta á þjóðsögur og sér eitthvað merkilegt við að einhver kerling hafi einhversstaðar pissað utan í stein eða einhver karl höggvið af sér stórutá við engjaslátt eða stúlkur kúldrast í þröngum fletum í seljum. Mér finnst þetta allt saman ósköp áhugavert og maðurinn hreinlega ljómar. Allir hamingjusamir.

Svo býður hann mér út að borða eftir göngutúr um Hafnarfjörð. Ég dýfi rækju í sósu og segi honum frá þýðingarverkefni sem ég get sinnt á meðan ég bíð þess að komast að með þessi námskeið hjá Alþjóðasetrinu, ánægð með það enda aðþrengd eftir langvarandi atvinnuleysi. Og þá kemur í ljós að hann hefur sem betur fer aldrei kynnst atvinnuleysi.

Semsagt ekki bótaþegi en hefur samt greinilega engan áhuga á að ræða vinnuna. Eitthvað er ekki eins og það á að vera. Ég lít beint framan í hann og spyr hvað hann geri.

Og nei, ég hefði sennilega ekki viljað hitta hann ef ég hefði vitað það. Maðurinn er lögregluþjónn til 30 ára.

Best er að deila með því að afrita slóðina