Var búin að hringja í allar mannréttindastofnanir og samtök sem ég fann en nei, það er víst engin þörf fyrir fólk sem vill vinna að mannúðarmálum nema þá í sjálfboðavinnu. Því miður, ég verð að hafa einhverjar tekjur, það er nú bara þannig.
Að lokum datt mér Alþjóðahúsið í hug, Það er ekki til lengur. Hinsvegar er til eitthvað sem heitir Alþjóðasetur. Fékk einhverja Erlu í símann og þegar ég sagðist hafa reynslu af íslenskukennslu og hafa áhuga á málefnum flóttamanna og innflytjenda, vildi hún endilega hitta mig. Ég gæti hugsanlega haldið námskeið fyrir innflytjendur.
Laugavegur 71. Upp stiga. Lítill silkiterríer heilsar mér um leið og ég geng inn á skrifstofu konunnar sem tók að sér að reyna að bjarga rústum Alþjóðahússins og er nú að byggja upp eitthvað svipað á ný. Hún horfir rannsakandi á mig og spyr hvort ég sé þessi Eva sem hóf undirskriftasöfnun vegna Geirfinnsmálsins.
Og nú þekki ég hana. Hún heitir Erla Bolladóttir.