Lífrænar sláttuvélar

Bjartur og Svartur buðust til að slá lóðina fyrir mig. Eða öllu heldur að lána mér lífrænar sláttuvélar á meðan þeir eru á Fjóni. Kanínubúrið er flennistórt og þegar kaínínurnar eru búnar að gæða sér á ofvöxnu grasinu undir því, dreg ég það aðeins til svo þær geti slegið næsta reit. Allir ánægðir.

Kisunum mínum finnst rosalegt sport að hafa kanínur úti í garði Eru á stöðugu vappi í kringum búrið og þótt kanínurnar séu miklu stærri en þær, hefur Norna ekkert sett upp kryppu eða ýft á sér rófuna eins og gerir ef hún sér hund.

Ein af kanínunum hennar Hullu lenti í slagsmálum um daginn og meiddist á trýninu. Hulla tók hana auðvitað inn til að hjúkra henni og þótt hennar kettir séu alvanir kanínum var greinilegt að Dúnu Geirsdóttur, litlu öryrkjakisunni á heimilinu, fannst allt annað að hafa kanínu lausa á stofugólfinu en í búri úti í hlöðu eða í garðinum. Kanínan er ca 5 sinnum stærri en Dúna en hún setti sig nú samt í veiðistellingar, Reyndi auðvitað ekkert meira en það en var á stjákli í kringum hana allt kvöldið. Djöfull er samt alltaf grunnt á hræsnararnum í manni. Við höfðum verið með kanínupottrétt í matinn kvöldið áður og ég gat einhvernveginn ekki hugsað mér að borða afganinn fyrir framan kanínuna. Kannski var þetta eitt af systkinum hennar, hugsaði ég og fannt eitthvað ógeðfellt við það, enda þótt hún hefði áreiðanlega ekki tekið því neitt illa.

Ég borða kjöt en ég get ekki hugsað mér að vera með dýr í búri sjálf. Þegar strákarnir voru litlir vorum við með hamstra. Mér fannst það alltaf ömurlegt og hleypti þeim alltaf út smá stund daglega. Það varð auðvitað til þess að þeir fóru sér að voða enda eru hamstrar ekki gæludýr.

Kanínur geta verið gæludýr en eru það sjaldnast. Gæludýr er nefnilega ekki dýr sem þér finnst notalegt að vesenast með, heldur dýr sem kýs að vera hjá þér. Ef þú sleppir því skreppur það út en kemur svo aftur. Ef þú þarft að hafa það í búri til að halda því hjá þér. þá er það ekki gæludýrið þitt heldur fangi þinn. Ég reikna ekki með að eiga eftir að fá mér kanínur, enda þótt þær séu þægilegar sláttuvélar og bragðist vel með beikoni og gulrótum í brúnni sósu.

Best er að deila með því að afrita slóðina