Skráður einhleypur

Kannski á maður ekki að lesa of mikið í það sem fólk gerir EKKI og ég veit eiginlega ekki af hverju þetta angar mig svona mikið því hann er góður við mig og búinn að hitta fjölskylduna og allt það, en við erum búin að vera saman í 3 mánuði og hann er ennþá skráður einhleypur á facebook.

Ég veit auðvitað að facebook er bara gerviheimur en á upplýsingasíðunni segist hann hafa áhuga á konum og hann er ennþá skráður á svona stefnumótasíðu og ég veit að hann fór inn á hana fyrir bara nokkrum dögum, ekki til að eyða henni. Ég spurði hann fyrir svona 6 vikum hversvegna hann væri ennþá skráður einhleypur og hann sagðist bara ekki hafa hugsað út í að breyta því. Samt breytti hann því ekki og núna um daginn nefndi ég þetta aftur og hann gaf aftur sama svar, spurði svo hvernig mér dytti í hug að hafa áhyggjur af því sem færi fram á einhverri bjána netsíðu. Finnst þér ég vera með óþarfa áhyggjur? sagði hún.

Hmmm… Ég veit ekki hvort er rétt að tala um áhyggjur. Í mínum huga er þetta mjög einfalt. Ef maðurinn segir alheiminum að hann sé einhleypur þá hlýtur hann að líta svo á sjálfur. Ef hann er skráður á stefnumótasíður og segist vera að leita að kynnum við konur, þá sé ég ekki af hverju maður ætti að draga það í efa. Þetta er ósköp einfalt ljúfan, þú ert kannski með honum en hann er ekki með þér. Punktur.

Best er að deila með því að afrita slóðina