Ást

Ástin hlífir þér við óþægilegu umræðuefni. sagði hann.
Ástin hefur hugrekki til að ræða það óþægilega aftur og aftur, þar til það hættir að vera óþægilegt, sagði hún.

Ástin gerir engar kröfur til hins elskaða, sagði hann.
Ástin gerir svo miklar kröfur til sjálfrar sín að hinn elskaði þarf ekki að gera neinar kröfur.

Ástin er skilyrðislaus, sagði hann.
Ástin er með öll sín skilyrði á hreinu, sagði hún.

Og af því að honum þótti hún afskaplega órómantísk, fór hann frá henni. Hann fann fljótlega aðra og bauð henni að flytja inn. Hún var yngri, mýkri og nægjsamari, nefndi aldrei neitt óþægilegt, gerði engar kröfur til hans og elskaði hann af sama ákafa þegar hann strauk á henni bakið og þegar hann sparkaði í hana, Eiginlega var eini gallinn við hana sá að hún kunni ekki á ryksugu. Hún hét Snúlla og nefið á henni var alltaf rakt.

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Ást

 1. ———————————————-

  Ástin græðir eftir vos
  ástin mæðir sárum
  ástin fæðir ótal bros
  ástin flæðir tárum.

  Ástin læðist unaðsþjál
  ástin ræðir þagnarmál
  ástin næði eyðir sál
  ástin bræðir viljastál.

  Ástin hjóna alloft sprakk
  ástin þjóna rengir
  ástin prjónar ergi stakk
  ástin skóna þrengir.
  (Björn Leví Gestsson)

Lokað er á athugasemdir.