Þetta eru fokkans fasistar

-Löggan elti okkur. Hægði á bílnum þegar þeir nálguðust. Hringsólaði í kringum okkur. Tók smá rúnt en kom svo aftur, sami bíllinn. Rétt á eftir kom annar á móti honum, þeir stoppuðu, töluðu saman og einn benti í átt til okkar. Annar bíllinn stoppaði svo við hús vinar okkar eins og til að láta okkur vita að þeir vissu hvert við ætluðum.
Þetta eru greinilega ekkert annað en skilaboð til okkar. Skilaboð um að þeir viti hvar við höldum okkur og hverja við umgöngumst og að það sé fylgst rækilega með okkur. Ég er orðin hundleið á þessu eilífa böggi og ég er bara að hugsa um hvað gerist hérna ef Sjálfstæðisflokkurinn nær kjöri?
 sagði Anarkistinn gremjulega og hnyklaði brýn.

Þá nær fasismi rótfestu hér en það gerist ekki, ég bara trúi því ekki, svaraði ég.

Ég átti von á því að Sagnfræðingurinn mótmælti mér. Ég reiknaði með fræðilegri útskýringu á því að eftirlitssamfélagið hefði samt sem áður fá einkenni fasisma og skorti þau mikilvægustu. Líklega vonaði ég að hann segði það, en hann gerði það ekki.
Ekki í sömu mynd og á Ítalíu Mússólínis, sagði hann, en já það er rétt, álíka geðsleg hugmyndafræði gæti náð yfirhöndinni og þá verða mannréttindi það fyrsta sem verður fórnað.

Ekki í sömu mynd nei, enda aðrar samfélagsaðstæður uppi. En í ríki þar sem fjársvelt lögregla eyðir meiri tíma í eftirlit með fólki sem heldur uppi andófi gegn yfirvöldum, (og það eftirlit sem þjónar ekki neinum öðrum tilgangi en þeim að reyna að taka fólk á taugum) en að sinna löggæslu, þar sem flokkshollusta er nánast með trúarlegu yfirbragði, þar sem fréttamenn sem sinna rannsóknarblaðamennsku eru reknir úr starfi og fólk sem sættir sig ekki við að lögreglan haldi uppi áróðri gegn ákveðnum samfélagshópum í unglingamiðstöðvum, fær ákúrur fyrir að tjá sig opinberlega, í því samfélagi eru ríkjandi einhver öfl sem eru allavega í sama saumaklúbbi og ný-fasisminn.

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Þetta eru fokkans fasistar

 1. ——————–

  Í mínum huga er persónueftirlit tengdara kommúnistastjórnum en fasistum – gamla sovét og allt það.

  Það er samt trúlega bara sama hver stefnan er þegar krafan er að allir fylgi einhverri línu þá er passað uppá það – fylgst með þeim sem líklegir eru til að passa ekki inní módelið.
  En öllum stjórnvöldum hlýtur að standa stuggur af anarkistum – þeir eru jú á móti öllum stjórnvöldum.

  Posted by: Jón Kjartan Ingólfsson | 17.02.2009 | 12:50:34

  ——————–

  Elementin sem eru „fasísk“ í huga flestra eru bara yfirborðselementin. Þau fara eftir stað og stund. Sá sem dæmir eftir þeim einum ber ekki kennsl á fasismann þegar hann snýr aftur. Andlitið er annað en kjarninn er sá sami, og málið snýst um að þekkja kjarnann.

  Posted by: Vésteinn Valgarðsson | 22.02.2009 | 0:19:03

  ——————–

  Kjarninn er það viðhorf að sumir séu öðrum æðri og að þeir æðri hafi náttúrulegan rétt til að brjóta á bak aftur, með valdbeitingu, hverja tilraun hinna óæðri til að ögra þeim.

  Viðhorfið hefur í gegnum tíðina komið fram í yfirvaldsdýrkun, þjóðernishyggju, trúarofsóknum og gagnrýnislausri flokkshollustu. Því hefur verið fylgt eftir með persónunjósnum, ritskoðun, refsigleði og lögum sem hafa fyrst og fremst þann tilgang að gefa skilaboð um það hver hafi vald yfir hverjum.

  Fasimi merkir að réttur ríkisins til að beita valdi er meira metinn en réttur einstaklingsins til að njóta verndar.

  Þegar við metum hættuna á uppgangi fasisma á Íslandi er ekki nóg að skima eftir hermönnum og telja bloggfærslur sem gagnrýna stjórnvöld. Við þurfum að skima eftir þessu viðhorfi; sumir eru öðrum æðri, og öllum hugsanlegum tilraunum til að fylgja því eftir.

  Posted by: Eva | 22.02.2009 | 12:53:39

Lokað er á athugasemdir.