Yfirleitt eyði ég ekki miklu púðri í að daðra. En það er ekki af því ég hafi ekki gaman af því eða sé ófær um það. Það er bara með daður eins og aðra leiki, maður vill leika við jafningja. En hitti maður á jafningja er það gaman. List. Lyst. Skemmtilegast þegar maður fær næstum því, en ekki alveg þó, staðfestingu á því að dýrið hafi áttað sig en viti ekki alveg hvar það hefur mann.
-Fokk í helvíti, af hverju sagði ég ekki eitthvað? sagði vinkona mín og læsti tönnunum í handarbakið.
-Af því að mannfýlan tók engu hinti og það er ekki kúl að segja; ég er einmana, viltu sofa hjá mér, giskaði ég.
-Einmitt! Hann kann ekki að daðra og í stað þess að tala tungumál sem hann skilur, þá sat ég ein heima og var kúl! Æðislegt!
Það getur verið praktískt að hafa ekkert kúl til að tapa.
En það er skemmtilegra að leika.
Allavega við þann sem fer sínar eigin leiðir.