Kapítalísk hamingja

Hva? Komast Íslendingar ekki á blað?Allar stjórnmálastefnur hafa það yfirlýsta markmið að skapa sem mesta hamingju handa sem flestum. Það virðist merkilegt nokk ganga betur eftir því sem velmegun eykst og vald dreifist á fleiri hendur. Því miður fela allar stjórnmálastefnur í sér þversögn og þessvegna fer þetta tvennt ekki saman nema í mjög blönduðu hagkerfi. Ég held að heimurinn yrði betri staður ef hægt væri að fjarlægja mestu sjálflægnina úr kapítalismanum. Já, það hljómar þversagnakennt en það er nú samt ekki fráleitara en kommúnískt einræðisríki. Sem gengur svosem heldur ekki upp. Ekki frekar en anarkí.

Maðurinn byggir hamingju sína á fjórum undirstöðum:

1 Líkamlegu öryggi og vellíðan.
-Það er ekki hægt að búast við að fólk sé ánægt þegar það býr við stríðsógn eða stöðuga óvissu um lífsafkomu sína og heilsuleysi hlýtur einnig að draga úr lífsgleði.

2 Tilfinningu um að maður hafi stjórn á örlögum sínum.
-Því meira frelsi og lýðræði því meiri almenn hamingja, -þessi könnun styður það.

3 Tilfinningatengslum og félagslegri viðurkenningu.
-Einsemd er sennilega algengasti þáttur sem þeir sem fyrirfara sér eiga sameiginlegan og langflestir síbrotamenn voru vanrækt börn.

4 Tækifærum til nýta og þroska hæfileika sína.
-Ég hef aldrei kynnst hamingjusamri manneskju sem ver ekki töluverðum tíma til að gera það sem vekur henni ástríðu. Menntun vinnur ennfremur gegn trú og öðrum heilaþvotti og gerir fólk færara um að hugsa sjálfstætt.

Ég held að það sé fyrst að þessum skilyrðum uppfylltum sem er eitthvert réttlæti í því að tala um að hver sé sinnar gæfu smiður. Við þurfum ekki endilega nýjustu græjur, líkamlega fegurð og akkúrat þá fjölskyldu sem við hefðum helst kosið en við þurfum lágmarks öryggi, vellíðan og vald. Ef maður býr við frið, velmegun, heilbrigði, frelsi, kærleika og ástríðu, þá er restin undir manni sjálfum komin. Og jújú, maðurinn ræður því auðvitað að einhverju leyti sjálfur hversu mikil áhrif það hefur á önnur svið tilverunnar ef eitt er í ólagi. Það er örugglega hægt að gera líf sitt öllu ömurlegra en það þarf að vera með því að temja sér neikvæða afstöðu og vonleysi. Samt sem áður er sumt fólk fórnarlömb aðstæðna sinna og hefur ekki góða möguleika á að njóta hamingju. Við hin berum ábyrgð gagnvart þessu fólki.

Það er hægt að útvega öllu fólki í heiminum frið og öryggi, gott heilbrigðiskerfi, velferðarkerfi og menntakerfi. Það er hægt að styðja kúgaðar þjóðir og minnimáttarhópa (sem eru ekki endilega í minnihluta) til sjálfstæðis, meira frelsis, meiri áhrifa hvers einstaklings á umhverfi sitt. Það er líklega erfiðara að sjá til þess að öll börn alist upp við ástúð og tilfinningalegt öryggi en það er samt hægt að stuðla að því og reyndar hlýtur allt ofangreint að bæta uppeldisaðstæður og samskipti almennt. Það sem vinnur gegn þessu er ekki kapítalismi í sjálfu sér, heldur sjálfselska, valdagræðgi spilling. Sömu eiginleikar og hafa snúið kommúnisma upp í andhverfu sína.

Það er ekki hægt að gera allt fólk hamingjusamt en það er hægt að gefa öllu fólki í heiminum möguleika á að skapa sér hamingju og okkur ber að gera það. Þetta er auðvitað siðræn afstaða sem sumir mótmæla (með rökum hins sjálfhverfa svíns) en að allri tilfinningasemi slepptri þá held ég bara líka að til langs tíma litið yrði það mjög hagkvæmt að útvega öllum kjöraðstæður til að koma sér upp hamingju. Ein af ástæðum þess að ég, sem er þó mun nær því að vera kapitalisti en kommúnisti, er mótfallin auðvaldsstefnu er sú að hún stuðlar að óhamingju í heiminum og óhamingja er bara ekki praktísk.

Jöfnuður er fögur hugmynd en óframkvæmanleg. Græðgi og metnaður eru of sterkir þættir í mannskepnunni til að jöfnuður gangi upp. Hitt er svo annað mál að kúgun, fátækt og fáfræði elur af sér aumingja. Það er auðvelt að stjórna aumingjum og þessvegna hafa fáir en sterkir aðilar hag af því að hafa hátt hlutfall aumingja í samfélaginu. Þeir sem hagnast á því eru hinsvegar í minnihluta og ég trúi því að með því að draga úr aumingjaframleiðslu, sé hægt að komast hjá því að láta þorra samfélagsins halda uppi miklum sæg aumingja. Markmið mitt er kapitalískt þótt nálgunin að því hafi á sér yfirbragð sósílamisma. Þeir hæfustu lifa af, gott mál. Gerum þá fleiri hæfa, svo fleiri lifi af, hamingjusamir til æviloka.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Kapítalísk hamingja

  1. ———————————————
    til hamingju með daginn! njóttu hans í botn 🙂

    Posted by: inga hanna | 1.07.2008 | 8:04:27

    ———————————————

    hæ elsku Eva mín og til hamingu með daginn.

    Posted by: sigrún | 1.07.2008 | 9:22:47

    ———————————————

    Áttu afmæli? Til hamingju.

    Posted by: Miss G | 1.07.2008 | 10:04:06

Lokað er á athugasemdir.