Hvað má það kosta?

-Segðu mér systir; hvað er ekki frábært við þessa hugmynd? sagði Borghildur og ef væri hægt að virkja augnaráð hefði ég hringt beint í Friðrik Sófusson og reynt að selja honum hana.
-Þetta er góð hugmynd að öllu öðru leyti en því, að þú ert að stinga upp á því að ég geri nokkuð sem mér finnst óbærilega leiðinlegt, sagði ég.
-Leiðinlegt! Og hvað með það? Við erum að tala um pening. Helling af peningum. Heillar það þig virkilega ekkert?

Ég mátaði hugmyndina.
-Nei, sagði ég svo, að vel íhuguðu máli.

Sennilega er eitthvað að mér. Ég væri alveg til í að vera rík en jafnvel tilhugsunin um leiðindi sýgur sálina úr mér. Yfirleitt er ég ekki í neinum vandræðum með að beita sjálfa mig aga og já, ég gæti satt að segja alveg notað meiri peninga en ég hef haft á milli handanna undanfarið og það má alveg kosta mig töluvert. Bara spurning hversu mikið.

-Má það vera erfitt? -Ekkert mál.
-Hættulegt? -Endilega!
-Tímafrekt? -Jájá.
-Afla mér óvinsælda? -Fokk já, glætan að ég hafi áhyggjur af áliti annarra.
-Ósiðlegt? -Ég gengi auðvitað ekki gegn mínum eigin gildum en aðrir verða að eiga sínar hugmyndir við sjálfa sig.
-Ólöglegt? -Hmmm… hverjar eru líkurnar á að það komist upp?
-Útheimta að ég læri eitthvað nýtt? -Já takk!
-Bjóða upp á særandi gagnrýni? -Ókei, ekki kannski á óskalistanum en skítur skeður.
-Krefjast þess að ég endurskoði öll mín viðhorf? -Já, fyrir alla muni, EN ég lofa ekki að verða samstarfsfólki mínu til neinna þæginda.
-Vera taugatrekkjandi? -Já, allavega í nokkra mánuði.

Það má alveg kosta eitthvað. Bara ekki tvennt: ég vil ekki þurfa að lúta stjórn annarra (hugsanlega í stuttan tíma ef ég hef samt mjög mikið svigrúm til að ákveða hvernig ég geri hlutina, ég þoli tímaramma alveg) og það sem er mikilvægara; ég bara afber ekki leiðindi. Ef mér leiðist lengi í einu verð ég leiðinleg. Ég þoli ekki leiðinlegt fólk og það er frekar erfitt að losna við sjálfan sig, jafnvel þótt maður eigi Angurgapa. Ég verð reið, ekki út í neinn sérstakan, heldur bara svona almennt, missi mig í hyper truntulega framkomu, finn hjá mér hvöt til að nöldra og hata sjálfa mig fyrir það.

Málið er að mér líkar ekki við sjálfa mig þegar mér leiðist og það þarf töluvert aðlaðandi verðmiða til að leggja það á sig að fá aldrei tveggja mínútna breik frá manneskju sem manni líkar illa við.

Þetta var afsökun dagsins.
Djöfull er ég góð.

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Hvað má það kosta?

  1. ———————————————-

    …. og djöfull skemmtileg :D,allaveganna nýt ég þess að lesa bloggið þitt þó ég hafi aldrei hitt þig.

    Posted by: Huld | 23.05.2008 | 18:09:40

Lokað er á athugasemdir.