Hugrenning um hamingjuna

-Ertu hamingjusöm?
-Skilgreindu fyrir mig hamingju.
-Þú veist hvað ég meina.
-Nei, ég veit það reyndar ekki. Ég hlakka til að vakna á morgnana ef það er það sem þú átt við.
-Nei ég átti ekki við það. Ég á við eitthvað dýpra.
-Hvernig er það ekki djúpt að vera spenntur fyrir ósköp venjulegum degi?
-Jújú, hamingjan er það en bara líka svo miklu meira.

Er hún það í alvörunni? Mér finnst það ótrúlegt. Maður upplifir andartök alsælu, taumlausa gleði sem endist einn dag í senn, stundum hugarró hluta úr degi í besta falli (nema maður sé búddamunkur á fjallstindi og það er maður yfirleitt ekki). Ást sem maður missir fyrr eða síðar nema maður deyi mjög ungur, kannski sigurvímu sem endist fram að kvöldmat.

Maður gæti alltaf þegið meira af því góða. Mig langar í stærri brjóst og nýjan jakka, starfsmann sem sér um allt sem mér finnst leiðinlegt að gera, fleiri lygna sólardaga og barnabörn og góðan mann. En þótt ég fengi þetta allt saman á silfurfati ásamt höfði Björns Bjarnasonar með epli í kjaftinum, myndi mig bara langa í eitthvað annað næst. Það er eðli mannsins að finna aldrei til fullnægju nema andartak í senn.

Svo er í alvöru hægt að búast við meiri hamingju en þeirri að vakna með eftirvæntingu og sofna með þakklæti?

Best er að deila með því að afrita slóðina