Árangur

Ég get hlaupið. Vííí!

Hingað til hef ég ekki getað hlaupið nema 1-2 mínútur án þess að standa á öndinni. Var alveg jafn léleg í gær og hina dagana, komin með astmaandardrátt um leið. Var frekar óánægð því þegar ég fór í ræktina í sumar, tók það mig ekki nema viku að ná upp nógu góðu þoli til að geta hlaupið.

Þetta er 9. dagurinn sem ég fer í ræktina og í dag gat ég allt í einu hlaupið. Ekki hratt og ekki lengi en það er töluverður munur á því að halda út í 10 mínútur eða bara 2 eins og í gær. Ég veit ekki til þess að neitt hafi gerst á þessum rúma sólarhring sem gæti skýrt þessa skyndilegu framför. Ekki nema hormónakjúklingurinn sem ég lét ofan í mig í gær (sjúkt og rangt, ég iðrast) sé svona úthaldsaukandi. Það er allavega eini faktorinn sem er eitthvað öðruvísi en hina dagana.

Það sogar alveg jafn mikið í lungunum á mér þegar ég hreyfi axlirnar en ég er að vona að með því að hlaupa smástund daglega í 3 vikur, verði lungun mín orðin nógu sterk til að ég þori byrja í magadansi aftur. Mér finnst samt fáránlega flippað að geta hlaupið án þess að fá astma en vera alltaf tæp eftir magadanstíma, sem ég held þó að reyni minna á hjartað en hlaup.

Það flippaðasta af öllu er svo mat nútímans á því hvað telst að vera í góðu formi. Þar sem ástandsskoðunin síðasta sumar, sagði mér meira um það hversu hroðalegan samanburð ég hef en raunverulegt ástand mitt, ákvað ég að treysta sjálfri mér best til þess að meta ástand mitt í þetta sinn. Hér með tilkynnist: kona sem er enn á barneignaraldri (ég er að vísu í kaskó sjálf en það er ekki afsökun) og getur ekki hlaupið í amk 20 mínútur án þess að hjarlslátturinn fari upp fyrir 160 slög á mínútu, er ekki í góðu ástandi. Punktur. Þessa speki hef ég eingöngu frá sjálfri mér en engum líkamræktarfrömuði. Enda sé ég ekki ástæðu til að treysta gáfnafari íþróttafólks.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Árangur

 1. ——————

  Ég fór í árlegt heilsupróf um daginn og ég er „í frábæru ástandi fyrir mann á mínum aldri“. Mér gekk meira segja illa ná honum upp(púlsinum þ.e.a.s) vegna góðs æðakerfis og svo sá ég ekkert nema naktar konur í spjöldunum á sálfræðiprófinu, meira segja á trúnaðaryfirlýsingunni líka !

  Posted by: Guðjón Viðar | 19.03.2008 | 14:31:20

  —   —   —

  Mér finnst alveg sérstaklega gaman að hlaupa, upplifi einhverja frelsistilfinningu við það að spretta úr spori.

  kannski maður hafi bara innbyggða flóttaþörf í sér?

  Posted by: baun | 19.03.2008 | 18:21:41

  —   —   —

  Oh, þetta þarf ég nefnilega að fara að gera þegar ég verð aftur orðin frísk, fara að hlaupa. Ég nefnilega er svo mikil kveif að ég skokka ekki á veturna (kalt! blautt! Oj!) heldur syndi þá bara meira. Sem þýðir að á vorin þarf ég alltaf að fara í gegnum þetta að ná að geta hlaupið lengur en í nokkrar mínútur án þess að finnast ég þurfa að deyja smávegis.

  Posted by: Unnur María | 19.03.2008 | 20:07:38

Lokað er á athugasemdir.