Já og fyrst ég er komin á flug …

Hér með tilkynnist: súkkulaði er ekki fitandi.
Ekki heldur brauð, rjómi, smjör eða kartöflur.
Ég borða þetta allt saman svo ef eitthvað af þessu væri fitandi í sjálfu sér, þá væri ég orðin 200 kg.

Jújú, fólk GETUR vissulega fitnað af þessum fæðutegundum. Það er fljótlegra að fitna af súkkulaði en káli. En maður þarf ekki að sleppa öllu sem er gott í heiminum til að komast hjá því að verða eins og fíll. Fólk hefur horft á mig borða kleinu eða súkkulaði og kommentað í öfundartón á óvenjulega heppni mína. Ég læt nefnilega sjaldan neitt á móti mér þegar matur og sætindi eru annars vegar.

Það sem þetta óheppna fólk virðist hins vegar aldrei hafa tekið eftir er að ég borða EINA kleinu eða TVO súkkulaðimola. Ég áttaði mig nefnilega á því fyrir margt löngu að þótt súkkulaði sé hollt fyrir sálina, gerir það mann nákvæmlega jafn hamingjusaman að borða einn konfektmola og að gúlla í sig 80 gramma sælgætishlunk sem inniheldur um 400 hitaeiningar. Óheppna fólkið sem fitnar af því að borða eitt snickers eftir að hafa borðað franskar með kokteilsósu hádegismat, öfundar mig af óvenjulegri brennslu minni! Það hefur líklega ekkert tekið eftir því að þegar ég borða heila skyndibitamáltíð í hádeginu, þá borða ég ekkert meira þann daginn. Enda hefur heilbrigt fólk ekkert lyst á því að borða of mikið.

Ég er grönn þrátt fyrir að borða hvað sem er, vegna þess að í 25 ár hefur uppistaðan í fæði mínu verið cheerios og grænmeti. Ég er þó mjög langt frá því að vera heilsufrík. Ég tel hvorki prótein né hitaeiningar og þótt ég borði blómkál og gulrætur mjög oft, þá borða ég líka sykur og rjóma. Bara ekki eins mikið og af blómkálinu. Óheppna fólkið hefur heldur ekki tekið eftir því að ef ég kaupi mér snickers, þá sker ég það í bita og er marga daga að borða það, eða ef ég er í viðbjóðslegu sukkstuði þá borða það í staðinn fyrir mat, ekki til viðbótar. Nema á stórhátíðum, þá borða ég bæði mat og nammi og hef svo litla lyst á ógeði í nokkra daga á eftir.

Ég er almennt skeptísk gagnvart hómópatíu en spekin minna er meira, á svo sannarlega við þegar hitaeiningarík fæða er annarsvegar. Það er beinlínis hollt að borða eina kleinu eða eina karamellu stöku sinnum, hafa rjómasósu og pasta með blómkálinu einu sinni í viku og drekka hálft vínglas með steikinni af og til. Það gerir mann glaðan. Það er hinsvegar óhollt að hegða sér eins og sælgæti sé matur og það gerir mann ekki glaðan.

Trixið mitt er semsagt ekki nein geimvísindi. Bara þetta rökrétta að innbyrða ekki meira en maður brennir. Éttu það sem þér sýnist. Bara ekki mjög mikið af því nema tvisvar til þrisvar á ári. Við höfum einmitt jól og páska til þess. Þetta trix dugar hverjum þeim sem er sáttur við að vera eins og feitu kjeddlingarnar hjá Dove en líklega ekki til að standast nútíma hugmyndir um æskilegt holdafar.

Er ekki annars eitthvað stórkostlega athugavert við veröld sem annarsvegar reynir að telja fólki trú um að kjörþyngd sé ógeðsleg og sykur sé hættulegur og lætur það samt sem áður viðgangast að sætindi séu seld í máltíðaskömmtum og að matvörubúðir hafi meira framboð af sælgæti og snakki en af mat? Ég veit svei mér þá ekki hvort mér finnst sjúklegra.

 

One thought on “Já og fyrst ég er komin á flug …

  1. ———————-

    Skil ekki að fólk skuli ekki átta sig á þessari einföldu staðreynd. 2100 hitaeiningar eiga að halda í þér lífinu ef þú ert í kjörþyngd og hreyfir þig reglulega, það er hins vegar of mikið ef þú ert í yfirþyngd. Til að missa hold þarf því að innbyrða færri en 2001 hitaeiningar og hreyfa sig meira en venjulega. Samt er fólk alltaf svo hissa þegar það er ekki að léttast og „skilur ekkert í þessu“

    En þá átta sumir sig ekki á því að þó eitthvað sé smátt, er ekki þar með sagt að í því séu fáar hitaeiningar.

    Þú ert skynsöm manneskja Eva, en það eru ekki allir.

    Posted by: lindablinda | 18.03.2008 | 14:10:18

    —   —   —

    Amen.

    Posted by: Kristín | 18.03.2008 | 16:40:00

    —   —   —

    Talandu um hvað er hollt þá er ég með smá út úr dúr. hvað er holt við þetta. ég held að kína sé komin í samkepni við ísland í manrétindarbrotum. eða hvað fynst þér Eva norn.http://www.vf.is/Frettir/35282/default.aspx

    Posted by: Dreingurinn | 19.03.2008 | 3:16:25

    —   —   —

    Þú lifandi???

    Þetta er nú svona með því ruddalegra sem maður hefur heyrt um hér á landi. Mér er sama hversu klikkaður maðurinn hefur verið, lögga sem er starfi sínu vaxin þarf aldrei að mölbrjóta andlitið á manni til að koma honum í klefa. Ef hann þá átti nokkurt erindi í klefa, sem samkvæmt þessari frétt er í skársta falli umdeilanlegt.

    Posted by: Eva | 19.03.2008 | 11:31:13

Lokað er á athugasemdir.