Hvörf

Keli og Lindita áttu 15 ára brúðkaupsafmæli í gær. Það er hellingur. Mér finnst það nánast flippuð hugmynd að Hulda Elíra hafi náð 12 ára aldri án þess að ganga í gegnum skilnað. Ég þekki bara svo fá slík dæmi um börn minnar kynslóðar.

Afstaða mín til hjónabandsins hefur farið í marga hringi síðan Keli og Lindita giftust. Á erfiðum tímum hefur trú mín á heilagleika hjónabandsins nálgast ameríska íhaldshyggju, saman í blíðu og stríðu uns dauðinn aðskilur. Ég hef jafnvel hugleitt þann möguleika að hlýða manninum mínum út á fullvissu um að vera elskuð, virt og vernduð, dáð og dekruð. Sú ímynd hrynur rækilega þegar vinkona fagnar 20 ára brúðkaupsafmæli, talar um að verða gömul með honum og er svo skilin ári síðar.

Inn á milli hef ég aðhyllst anarkistahjónabönd af ýmsu tagi. Ég hef reyndar aldrei séð slíkt fyrirkomulag virka nema í nokkra mánuði en að fenginni reynslu get ég fullyrt að anarkísk hjónabönd þurfa alls ekki að vera slæm. Bara mjög skammlíf. Þau sem endast þróast yfir í hefðbundna sambúð tveggja á nokkrum mánuðum.

Stundum hef ég upplifað daga, jafnvel nokkrar vikur sem ég hef verið fullkomlega sátt við einlífi. Karlmönnum fylgja iðulega mörg drösl sem ég vil ekki hafa heima hjá mér og svo hafa þeir tilhneigingu til að dreifa verkfærum, tölvudrasli, útivistardóti eða listsköpunargræjum, tilviljanakennt um heimilið. Ég þekki einn sem reif bílvél í sundur á stofugólfinu heima hjá sér og þar lá hún í viku.

Ég er reyndar búin að fá staðfestingu á því núna að það eru til karlmenn sem eru ekki ruslasafnarar en ég held að það séu ekki mörg eintök af þeirri tegund á lausu. En já, semsagt, ég hef aldrei, ekki í eitt einasta skipti þrætt við kærasta eða sambýlismann út af fjármálum (sem mér skilst að sé helsta deiluefni para) en mismunandi skilgreiningar á drasli (ég skilgreini drasl sem hvern þann hlut sem hefur ekki verið neinum til gagns eða ánægju í ár eða lengur) hafa tekið of mikla orku og tíma frá mér til að mér finnist það ástarinnar virði að búa á ruslahaug. Ég get líka alveg verið drifter og þótt það geri mann grimman til lengdar hefur mér liðið ágætlega á meðan ég velti því ekki of mikið fyrir mér hvort mér líki vel við sjálfa mig í því hlutverki.

Eina fyrirkomulagið sem mér hefur aldrei hugnast er kærustusamband. Ef fólk kynnist ekki nógu vel á nokkrum mánuðum til að gera upp við sig hvort það eigi skap saman, þá mun það heldur ekki kynnast á 20 árum. Ég hef þessvegna alltaf litið á langtíma kærustusambönd fullorðinna sem andstyggilegt kúgunartæki. Aðferð þess sem sér enga framtíð í sambandinu til að halda ástfangna aðilanum volgum án þess að taka á sig nokkra ábyrgð gagnvart honum/henni. Og þá finnst mér bara hreinlegra að slíta því strax.

Ég er reyndar í svona kærustusambandi núna og undarlegt nokk þá líkar mér bara ágætlega að geta komið og farið eins og mér sýnist. Ég er hvorki að undirbúa flótta né ástarsorg. Ég hef velt því fyrir mér hvort ég sé gengin inn í hlutverk skúrksins sem vill bara sleikja kremið af kökunni en mér líður ekki þannig. Það er heldur ekki eins og ég hverfi dögum saman og ef Walter grætur sig í svefn þær nætur sem hann er einn hafa leikhúsin misst af miklum listamanni.

Ég ætla samt til öryggis að hætta þessu ritæði og gá hvort mér er nokkuð að vaxa typpi

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Hvörf

 1. —————————————-

  Spes.

  Ég þekki ótölulegan fjölda dæma um börn sem hafa aldrei gengið gegn um skilnað og eru þó orðin unglingar. Í vinahópi dóttur minnar er bara eitt skilnaðarbarn, til dæmis, og ég hef engan veginn tölu á börnunum sem ég hef kennt og búa enn hjá báðum kynforeldrum – saman. (eða gerðu það meðan ég kenndi)

  Þetta er ennþá til og ekki einu sinni óalgengt.

  Kærustusamband finnst mér allt í fína, svo lengi sem báðir aðilar eru sammála um það, ekki annar í einhverri bið.

  Posted by: hildigunnur | 22.02.2008 | 11:19:40

  —   —   —

  Segi það sama. Flestir sem ég þekki hafa verið saman frá því í menntó. Engin í fjölskyldu minni hefur heldur skilið 🙂 Er þetta eitthvað rarítet orðið ?

  Posted by: Guðjón Viðar | 22.02.2008 | 15:14:09

  —   —   —

  Ég þekki allavega mjög fáa krakka á aldrinum 12-16 ára sem hafa ekki gengið í gegnum skilnað. Í fljótu bragði man ég reyndar bara eftir Huldu Elíru. Ég þekki reyndar tvö dæmi þar sem foreldar hafa skilið en tekið saman aftur. Ég veit líka af börnum sem hafa ekki þessa reynslu en þau tilheyra ekki minni fjölskyldu eða vinahóp.

  Posted by: Eva | 22.02.2008 | 16:49:08

  —   —   —

  Um 30% hjónabanda enda með skilnaði, sem hlýtur að merkja að meirihlutinn lifir hamingjusamur til æviloka. Ég virðist þekkja einmitt þessi 30% sem skilja.

  Fyrir nokkrum árum þekkti ég eingöngu reykingafólk. Fannst virkilega ótrúlegt að aðeins 30% fullorðinna væru reykingamenn. Ég er reyndar búin að kynnast fullt af fólki síðan sem er ekki reykingamenn. Þetta hlýtur að vera dæmi um aðdráttarlögmálið.

  Posted by: Eva | 22.02.2008 | 16:59:36

Lokað er á athugasemdir.