Hver er pælingin?

Það angrar mig alltaf dálítið að sjá ekki röklegt samhengi í hlutunum. Þetta á líka við um það sem kemur mér ekkert við. T.d. það hvernig annað fólk hagar bókhaldi sínu.

Það hvarflar ekki að mér að gera skattaskýrsluna mína sjálf. Endurskoðandinn minn kann nefnilega fullt af trixum sem ég kann ekki og hann hefur sannarlega unnið fyrir laununum sínum hingað til. Fyrir utan það að forða mér frá sálarangist, sjálfsmyndarhruni og óbærilegum leiðindum.

Ég sé hinsvegar um að greiða reikningana mína sjálf enda var greiðsluþjónustan hönnuð fyrir fólk sem kann ekki að deila með 12 og ég er svo heppin að eiga vasareikni. Ef ég lendi í vanskilum þá verður það af því að útgjöldin eru hærri en tekjurnar til langs tíma (Mammon forði oss frá illu) en ekki af því að mér hafi verið ókunnugt um að LÍN ætlaðist til þess að ég endurgreiddi námslánin mín

Það sem ég skil ekki er hvernig nokkur getur séð skynsemi í því að gera skattaskýrsluna sína sjálfur en láta fagmenn um rafmagnsreikninginn.
Ég skil reyndar heldur ekki hversvegna þetta fer svona í taugarnar á mér. Mér er nokk sama hvort fólk sem ég þekki ekki er vitlaust eða klárt. Það er bara eitthvað við þetta ósamræmi sem ergir mig. Einhvernveginn eins og að vera í jogginggalla og háhælaskóm.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Hver er pælingin?

 1. ————————————————

  Já, endurskoðendur og lögfræðingar eru til margra hluta nytsamlegir 🙂

  Posted by: Guðjón Viðar | 23.02.2008 | 15:52:45

  —   —   —

  Finnst þér ekki flott að sjá konur í jogginggalla og háum hælum???
  En ef þær eru líka pínu bústnar (t.d með 30 auka kiló) og í þröngum magabol?
  Það finnst mér ógó sjarmerandi sjón.

  Sakna þín mikið.

  Posted by: Hulla | 23.02.2008 | 18:08:49

  —   —   —

  Iss, mér finnst bara svo þægilegt að láta greiðsluþjónustuna sjá um reikningana fyrir mig og jafna útgjöldunum og svona. Þetta er hreinlega eins og að vera vel giftur sem ég kann vel að meta eftir að hafa þurft að hugsa ein um of mikið um of flókin fjármál í síðustu tveim sambúðum. Skattskýrsluna finnst mér hinsvegar alltaf næs að gera sjálf og hef gert hana sjálf í allavega tíu ár. Það er fínt að fá árlegt yfirlit yfir hlutina. En ég er heldur ekki með flókinn rekstur.Þannig að ég er kannski í jogginggalla og hælaskóm en þetta er sko engin venjulegur jogginggalli heldur svona flauelskokteiljogginggalli frá Leyndarmáli Victoríu. 😉

  En ég er líka á þeim góða díl að bankinn gerir þetta fyrir mig ókeypis, ég er ekkert viss um að ég væri til í að borga fyrir þennan lúxus.

  Posted by: Unnur María | 23.02.2008 | 20:39:57

Lokað er á athugasemdir.