Aldarfjórðungur liðinn

Bekkjarmót.

Eitthvað svo notalegt að koma aftur hingað í gamla heimavistarskólann minn. Heyri raddir að innan og ber strax kennsl á Dóru. Þær eru þrjár sem eru komnar á undan mér og fleiri stelpur víst ekki væntanlegar. Fyrir utan fullorðinsdrættina í andlitinu hafa þær lítið breyst.

-Jónína jafn fáguð, hæglát og elegant og á unglingsárunum. Hún kennir handavinnu og það kemur víst ekki á óvart. Aðeins 16 ára saumaði hún föt sem voru ekkert síðri en úr búð.
-Hanna Rósa sami húmoristinn og fyrr, með karisma fyrir allan peninginn og skörp í þokkabót. Hún var vinsælust. Frumleg, djörf og drullufyndin en vissi ekki alltaf hvenær hún var komin undir kviku. Ekki ég heldur svosem en flestir tóku meira mark á henni.
-Dóra, dugleg, traust, hlý og skapgóð og en sannarlega engin undirlægja. Hún var sú fyrsta úr hópnum sem mér líkaði við af því að fyrsta daginn í skólanum tók hún upp hanskann fyrir einhvern sem var verið að baktala. Kannski líka svolítið af því að hún var með ennþá stærri brjóst en ég og ég var heltekin af samanburðarheilkenninu.

Það hefði verið gaman að hitta fleiri úr hópnum en af stemningunni að ráða er ekki á dagskrá að láta fjarveru annarra spilla einni mínútu af gleðskapnum. Átta strákar búnir að boða komu sína. Sum okkar geta átt von á barnabörnum hvað úr hverju en ég get ómögulega séð þau sem annað en „krakkana“.

Þótt ég hafi aldrei fallið almennilega í hópinn finnst mér ég samt dálítið á heimavelli. Þetta verður góður dagur.

Best er að deila með því að afrita slóðina