Óviðkomandi bannaður aðgangur

Hvað gerir maður við fólk sem segir fjórtán ára dreng að hann tilheyri ekki fjölskyldu pabba síns? sagði konan, reið en yfirveguð.

Þau höfðu eignast fullkomlega heilbrigt barn. Engin sérstök vandamál og þau fóru með það heim strax um hádegi daginn eftir. Seinni partinn þegar drengurinn bankaði upp á til að bjóða litlu systur sína velkomna í heiminn, var lokað á nefið á honum. Hann mátti koma og sjá hana seinna, sögðu þau en „fjölskyldan“ þurfti að fá að vera í friði fyrstu vikuna.

Í þokkabót hafði hún fyrir satt að foreldrar og systkini nýju konunnar teldust samt nógu náin fjölskyldunni til að fá að umgangast ungann frá fyrsta degi.

Hvað gerir maður við fólk sem hendir gömlu börnum sínum þegar það eignast ný?
Hvað föðurómyndina varðar mun málið leysast af sjálfu sér því kona sem kemur svona fram mun vafalaust taka litla barnið frá honum þegar þau skilja. Eða þá að þau skilja ekki og hann situr uppi með hana áratugum saman. En það væri nú kannski einum of grimmdarlegt?

Öllu erfiðara mál að koma þessum kvenbjálfa í skilning um muninn á réttu og röngu.
Það má nefnilega ekki bitna á börnunum.

Heiftarleg gyllinæð væri kannski viðeigandi. Með illa lyktandi ígerð. Nógu hrottaleg til þess að frekari tilraunir þeirra til að uppfylla jörðina verði óframkvæmanlegar. Gallarnir eru þrír. Í fyrsta lagi er hægt að lækna gyllinæð. Í öðru lagi er erfitt að fá staðfestingu á því að galdurinn hafi skilað viðunandi árangri og í þriðja lagi er hætta á því að vanlíðan móðurinnar hafi áhrif á ungbarn.

Hvað gerir maður við svona fólk?
Tillögur óskast.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Óviðkomandi bannaður aðgangur

  1. ——————————————

    ojbarasta! Á ekki orð.

    Posted by: hildigunnur | 6.06.2007 | 8:18:41

    ——————————————

    mér finnst gyllinæðin ágætis hugmynd!

    Posted by: inga hanna | 6.06.2007 | 8:40:39

    ——————————————

    er ekki hægt að magna upp með galdri siðgæði og meðlíðan hjá fólki?

    þetta er ósæmileg hegðun.

    Posted by: baun | 6.06.2007 | 10:14:41

    ——————————————

    Ég kann því miður enga galdra sem lækna fólk af eigingirni og tillitsleysi. Mér er hinsvegar sagt að fólk þroskist í gegnum þjáningar og spurning hvort er ekki hægt að útvega þeim slíkt tækifæri.

    Posted by: Eva | 6.06.2007 | 10:41:39

    ——————————————

    Skamma konuna yfirvegað en með hárri og ákveðinni röddu á opinberum stað, helst þar sem að margir þekkja hana. Láta líka almennt vita af framkomunni. Pakk!

    Posted by: lindablinda | 6.06.2007 | 11:09:57

    ——————————————

    Ég er gersamlega bit. Meiri finnst mér þó mannleysan í föðurnum að láta konuna komast upp með þetta. Nema hann eigi ekkert í barninu og hafi ekkert um þetta að segja? Pakk segi ég líka!

    Posted by: Unnur María | 6.06.2007 | 11:42:48

    ——————————————

    nafngreining er fyrsta skref, ef þú ert handviss um þetta…

    Posted by: hildigunnur | 6.06.2007 | 21:54:15

    ——————————————

    Æ-i. Það er alltaf svo erfitt að dæma í svona málum þegar maður fær bara að heyra eina hlið málsins. Ég myndi alla vega vilja heyra útgáfu nýbökuðu móðurinnar á þessum atburði.

    En segjum sem svo að þetta hafi raunverulega gerst svona og engar sérstakar aðstæður hafi getað afsakað þessa framkomu þá finnst mér sökin fyrst og fremst vera hjá föðurnum. Og auðvitað á bara að ræða við hann og skamma hann fyrir dugleysi og aumingjaskap.

    Posted by: Þorkell | 7.06.2007 | 7:11:08

    ——————————————

    Það eru engar aðstæður sem afsaka það að reka unglinginn í burtu af tröppunum. Ef móðirin var nógu hress til að hitta sína ættingja þá var hægt að leyfa honum að tipla inn og sjá litlu systur í fimm mínútur og svo hefði pabbinn spjallað við hann frammi í eldhúsi í korter og sagt honum að koma seinna því hin nýbakaða móðir væri þreytt og hann ætlaði að dekstra hana eitthvað. Það hefði verið eðlileg hegðun. Sú hegðun sem faðirinn aftur á móti tók þátt í heitir afneitun.

    Posted by: Unnur María | 7.06.2007 | 13:19:42

    ——————————————

    Kæra Unnur María. Ég hef svo oft lent í því að heyra svona sögur þar sem allt virðist svo einfalt en þegar betur er að gáð kemur í ljós að það eru tvær hliðar á málinu. Ég hef auðvitað einnig séð feður gjörsamlega bregðast og stjúpmæður haga sér eins og útgáfan af þeim í ævintýrunum. En málið er að það er ekki hægt að vita hvort á við í þessu tilviki, alla vega ekki fyrr en maður hefur heyrt hina hlið málsins. Annað er ábyrgðalaust slúður.

    Posted by: Þorkell | 7.06.2007 | 18:55:42

    ——————————————

    Auðvitað er önnur hlið á þessu máli eins og öllum öðrum. Skoðum þetta bara út frá sjónarhóli konunnar. Hún varð hrifin af manni, varð ólétt eftir hann og ætlaði að stofna litla fullkomna kjarnafjölskyldu. Af hverju ætti hún að leyfa einhverjum unglingi sem kemur henni ekkert við að eyðileggja það?

    Og hlið pabbans: Hann er búinn að standa í 9 mánaða vinnu við að reyna að hafa móður jörð góða. Unglingurinn er mun ólíklegri til að láta í ljós óánægju. Af hverju ætti hann að fórna heimilisfriðnum þegar sáralítil hætta er á því að strákurinn fari að gera mál úr þessu?

    Posted by: Eva | 7.06.2007 | 22:51:13

    ——————————————

    Segi eins og Keli, erfitt að dæma svona án þess að þekkja til. Unglingurinn gæti hafa verið búinn að reyna mjög á þolrif konunnar, verið dónalegur eða svikull – og hún kannski með fæðingaþunglyndi. En mér finnst þetta allavega ótrúlega sorglegt – hvernig sem á þessu stendur – og stráksi á eftir að muna þetta alla sína ævi. Merkilegt samt að frændsystkin mín eru nýbúin að upplifa það sama. Fengu ekki að sjá hálfsystkini sitt fyrr en það var nokkurra daga gamalt. Skyldi þetta vera algengt?

    Posted by: Sigga | 7.06.2007 | 22:59:31

    ——————————————

    Þetta er reyndar alls ekki raunin, þetta er ósköp geðþekkur og rólegur drengur og hafði sáralítið flækst fyrir móður jörð enda fundið sig óvelkominn. En jafnvel þótt svo væri, finnst mér það ekki réttlæta þessa framkomu.

    Einhvernveginn segir mér svo hugur um að frændsystkini þín séu heldur ekki afkastamiklir glæpamenn. Ég vona að það sé ekki algengt viðhorf að þau börn sem makinn átti fyrir séu ekki hluti af fjölskyldunni.

    Posted by: Eva | 8.06.2007 | 9:07:30

    ——————————————

    Ég veit að ekki er hægt að dæma aðstæður þegar maður hefur ekki heyrt báðar hliðar. Þetta tiltekna atvik finnst mér hinsvegar falla undir atvik sem vissulega er hægt að dæma sem svo að þarna hefði fimm mínútna kurteisi kostað lítið en bjargað mjög miklu. Drengurinn er eftir allt saman nánasti ættingi nýfæddu stúlkunnar að foreldrunum undanskildum.

    Mér leiðist annars þetta viðhorf sem er í gangi í samfélaginu að allir eigi að vera svo mikið að passa sig að dæma ekki og svona, held það framkalli skeytingarleysi. Tek það þó fram að þetta tek ég fram að gefnu tilefni en ekki sem skot á einn né neinn. Ég var alin upp við ákveðnar kurteisis- og umgengnisreglur og í flestur tilvikum hef ég á endanum séð að með þeim er góður og gegn tilgangur.

    Það versta er að hér er það ekki bara drengurinn sem er sendur í burtu heldur er hér verið að lýsa fyrir frati á fortíð föðursins eins og hún leggur sig. Þannig er það nú. Og mér finnst alltaf miður að heyra af því þegar börn eru notuð sem peð í slíku tilfinningafokki.

    Posted by: Unnur María | 8.06.2007 | 15:35:31

    ——————————————

    Ég tek undir það, vona að þetta sé ekki algengt. Og það er rétt hjá þér líka að frændsystkini mín eru bestu skinn. Hann er alltaf erfiður gullni meðalvegurinn… mér finnst dómharka ekki síður hafa aukist en skeytingarleysi. En það er allavega pottþétt að það er sorglegast að börn eru svo oft peð í slæmum og óþroskuðum samskiptum fullorðinna.

    Posted by: Sigga | 8.06.2007 | 16:33:31

Lokað er á athugasemdir.