Fear of Flying

-Ertu andvaka?
-Kannski gerum við of mikið úr muninum á því að vera and-vaka og vak-andi.
-Klukkan er að ganga þrjú. Það hlýtur að vera eitthvað að fyrst þú ert samræðuhæf á þessum tíma sólarhings.
-Það er ekkert að. Ég var bara að hugsa dálítið skrýtið.

-Nú?
-Mér finnst ég vera elskuð.
-Það er náttúrulega fullgilt andvökuefni.
Auðvitað VEIT ég alveg að ég er elskuð. Ég hef reynslu af því. Alveg eins og af flugvélum og Hvalfjarðargöngunum og ýmsu öðru sem er svo órökrétt að maður trúir ekkert almennilega á reynslu sína. En núna FINNST mér allt í einu að ég sé elskuð, þótt ég hafi ekkert betri ástæður til að finnast það nú en fyrir einu ári, eða tíu árum. Og ég er bara svona að velta því fyrir mér hvað sé eiginlega að gerast í hausnum á mér.
-Hafðu ekki áhyggjur elskan. Ég kem þér undir læknishendur um leið og þú ferð að trúa á tilvist flugvéla.
-Í alvöru Elías, þetta er ekkert grín. Ég gæti farið að trúa á Gvuð með þessu áframhaldi.
Munurinn er náttúrulega sá að það eru góð og gild rök fyrir flugvélum og Hvalfjarðargöngunum og þú veist að þótt þú kunnir ekki skil á verkfræðinni á bak við þessi fyrirbæri, þá gætirðu lært hana ef það skipti þig máli.
-Já en það eru hinsvegar engin sérstök rök fyrir því hversvegna einhver ætti að elska mann. Allavega engin rök sem ég er nýbúin að uppgötva.

Þögn.

-Málið er að þú ert ekki flughrædd.
-Nei?
-Sem merkir að þú trúir alveg á eðilsfræðina þótt þú skiljir hana ekki.

Og þá þótti mér ég vera vakandi.

Best er að deila með því að afrita slóðina