-Hversu vel þekkirðu mig?
-Giskaðu.
-Ég kom með soldið handa þér, bara svona lítið og sætt, gettu hvað.
-Hmmm? Ekki eitthvað til að hengja á spegilinn í bílnum?
-Nei.
–(Hjúkket) Þessi er erfiður. Tengist það nokkuð tölvum?
-Nei, það er nammi.
-Ó! komstu með lion-bar. Það er ekkert smá sætt.
-Nei, þetta, sagði hann og reiddi fram súkkulaðistöng. Ég hef einu sinni á ævinni keypt þesskonar súkkulaði.
-Ég þekki þig greinilega ekki mjög vel. Ég hefði ALDREI giskað á þetta.
-Nú? Þetta er uppáhaldsnammið þitt og þú ættir að þekkja mig nógu vel til að vita að ég veit hvað virkar á þig.
Ég fann að ég varð kindarleg á svipinn en bara smástund því svo áttaði ég mig á tengingunni.
-Takk elskan, þetta var sætt af þér, sagði ég.
Hann horfði rannsakandi á mig.
-Bíddu… var það ekki þetta…?
-Neeeei. Það sem ég kaupi er í svipuðum umbúðum en það er með hnetukremi.
-Úps!
-Þetta er samt fínt, alveg. Mér finnst þetta gott líka.
-Ég þekki þig greinilega ekki eins vel og ég hélt, sagði hann og nú var það hann sem var kindarlegur.
Reyndar var þetta réttara en þú heldur. Lion-bar hefði, sakir nýfengis tákngildis síns, slegið gjörsamlega í gegn í raunveruleikanum en það hefði verið of væmið fyrir sápuóperu tilveru minnar, ég hefði orðið að breyta því þegar ég skrifaði það inn í söguna. Hnetukremssúkkulaðið hefði líka smogið inn í hjarta mitt en ég efast um að ég hefði komið hrifningu minni til skila í rituðu máli.
Maður getur aldrei þekkt aðra manneskju fullkomlega svo fyrir ástarsögu er rangt súkkulaði akkúrat rétt. Þegar allt kemur til alls var tilgangurinn sá að sanna hve vel þú þekkir mig og þú skalt ekki ímynda þér að það sé tilviljun að þú valdir þetta mjúka vanillukem. Hot&spicy er fínt í hófi en stundum þarf maður bara vanillu. Sérstaklega þegar lífið skítur á tröppunar hjá manni. Auk þess virkar súkkulaði alltaf.
————————————
Ég las það um daginn að þeir séu farnir að framleiða vanillu úr kúadellu.
Posted by: Elías | 14.03.2007 | 14:56:16
————————————
Kæmi mér ekki á óvart þótt vanilla ætti eitthvað skylt við dellu.
Posted by: Eva | 14.03.2007 | 15:08:32