Verslunarrunk

Síðast þegar ég hitti hana sagði hún að hjónabandið hefði aldrei verið betra. Börnin orðin stór, skuldir uppgreiddar og loksins tími til að fara að njóta lífsins af alvöru.

-Við höfum þroskast saman en ekki sundur, sagði hún. Við höfum myndað okkur smekk og skoðanir saman, mótað hugmyndir saman svo við greinum ekki hvað kom frá mér og hvað frá honum og það skiptir heldur ekki máli. Við verðum gömul saman og mér finnst það fallegt.
Þetta sagði hún og ljómaði.

Svo hitti hann yngri konu sem hefur enga augnpoka (ennþá) og getur sett lappirnar aftur fyrir hnakka (ennþá) og við það hljóp þreyta í hjónabandið.

Nú þyrfti ég áfallahjálp. Ekki út af skilnaði sem kemur mér ekki við. Ekki heldur vegna þess að ég hafi skyndilega horfst í augu við raunveruleikann, ég hef ágæta þjálfun í því og þetta hefur svosem allt saman hvarflað að mér áður. Það sem setur mig alveg út af laginu er mín eigin heðgun. Ég er ekkert mikið fyrir veruleikaflótta og venjulega bregst ég við skyndilegri raunveruleikatengingu með því að losa mig við það sem rýrir hamingju mína, hvort sem það er verkefni, manneskja eða viðhorf. Nú ber nýrra við. Ég missti skyndilega trúna á ástina og veit ekkert hvaða fjandans skoðun á samlífi kynjanna ég á að taka upp í staðinn. Í morgun hagaði ég mér eins og kona. Eins og þær gerast aumkunarverðastar. Ég eyddi tveimur klukkutímum í fatabúð og of fjár í fatnað sem ég gæti alveg verið án.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Verslunarrunk

  1. ————————

    Eitthvað hljómar þetta kunnuglega……vertu góð við vinkonu þína – hún þarfnast þess núna.

    Posted by: lindablinda | 20.02.2007 | 18:51:43

Lokað er á athugasemdir.