Goðsögn

Ég er eiginlega bara mjög döpur. Ég er hægt og rólega að jafna mig eftir skeldýrið. Eftir nokkrar vikur verð ég aftur farin að líta á karlmenn sem fólk og þá fer mig að langa að hafa einn slíkan nálægt mér. En nú er ég bara ekki lengur viss um að ég muni þora að láta á það reyna.

Líf mitt er að öllu leyti ljómandi gott. Ég hef engar praktískar ástæður til að vanta karlmann. Ég er bara svo veik fyrir hugmyndinni um að eiga besta vin í heiminum alla ævi og ég hef heldur aldrei verið sátt við að sofa ein. Það er auðvitað tilgangslaust að vera ósáttur við það sem er ekki hægt að breyta svo líklega hefði ég sætt mig við einlífi ef ég hefði ekki alltaf verið sannfærð um að væri umbreytanlegt ástand. Ég er farin að efast. Alvarlega. Hjónabönd góðs fólks fara í vaskinn, stöðugt og ef er fyrirfram garanterað að þegar ég eignast sálufélaga þá verði það bara til þess að ég þurfi að ganga í gegnum einn skilnaðinn enn, þá vil ég frekar sleppa því.

Ætli séu til hjónabönd sem eru nógu góð til þess að fólk vilji viðhalda þeim án praktískra ástæðna? Eða er það goðsögn?

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Goðsögn

  1. ——————————————————

    …er sálufélagi þinn mikið fyrir hjónaband? Leyfi ég mér að spyrja!?

    Posted by: Langi Sleði | 20.02.2007 | 8:38:10

    ——————————————————

    Sumir fiskar þrá reiðhjól, þrátt fyrir allt…

    Posted by: HT | 20.02.2007 | 8:49:15

    ——————————————————

    Ég lék mér að því um daginn, í framhaldi af spekúleringum um vinkonu sem lafir með manni út af peningum, að spá alvarlega í praktísku hliðina á teórískum skilnaði mínum við manninn minn. Það yrði erfitt en ég held að við myndum samt ná að spjara okkur sitt í hvoru lagi enda sættum við okkur við lítið húsnæði og erum ekkert mjög þurftafrek.
    Og við erum afskaplega sátt við að vera saman og höfum það voðalega gaman og oftast leyfi ég mér að sjá okkur fyrir mér, sitjandi gömul saman einhvers staðar á hlýjum og góðum stað. Jafnástfangin. En um leið er ég símeðvituð um að einn daginn getur þessi draumsýn hrunið… ekki segja að þetta sé bara goðsögn, ekki segja það, ekki gera það…

    Posted by: Kristín | 20.02.2007 | 8:57:21

    ——————————————————

    já, þau eru til.

    Posted by: hildigunnur | 20.02.2007 | 9:01:32

    ——————————————————

    ekkert í þessu lífi fær mig til að hætta að trúa á ástina.

    Posted by: baun | 20.02.2007 | 9:17:54

    ——————————————————

    Það er spurning hvort að þetta nútímaþjóðfélag bjóði hreinlega upp á að fólk geti látið þetta ganga upp að eilífu – en við verðum að vona. Annars er allt til einskis.

    Posted by: lindablinda | 20.02.2007 | 9:37:39

    ——————————————————

    Já Langi Sleði, vissulega og ég á reyndar sálufélaga sem er mikið fyrir hjónaband. Hann er reyndar líka mikið fyrir að eiga hjákonu fyrst tvíkvæni er ekki í boði

    Posted by: Eva | 20.02.2007 | 14:53:05

    ——————————————————

    Já. Þau eru til. Ég segi ekki að þau séu algeng, en ég veit samt um slík hjónabönd…

    Posted by: Gerður | 21.02.2007 | 14:39:22

Lokað er á athugasemdir.