Final countdown

Ég er orðin svo þreytt að ég get ekki einu sinni hlakkað til þess að komast í frí. Kvíði því bara að horfast í augu við ruslaskrímslið í herberinu hans Darra. (Nei hann er ekki einfær um að taka til hjá sér, hann VILL hafa þetta svona)

Komst í gegnum Bónus í morgun án þess að fara á límingunum en þetta er í fyrsta sinn í 10 ár sem ég ræðst í jólainnkaupin án þess að hafa a.m.k. einn strák með mér. Eiginlega ætti það að vera sjálfsagður réttur hverrar húsmóður að hafa stuðningsfulltrúa með sér í matvörubúðir. Ég uppgötvaði ekki fyrr en eftir á að ég hefði áreiðanlega getað fengið Búðarsveininn til að koma með mér. Ég á aldrei eftir að skilja fólk sem finnst skemmtilegt að versla.

Darri fyrir norðan og óvíst hvenær veðrinu slotar. Ég var að vona að hann yrði kominn heim um miðjan dag á morgun svo ég myndi allavega losna við að skreyta fjandans jólatréð sjálf en heimkoma hans gæti dregist. Haukur verður á vakt og ég reikna ekki með að koma heim fyrr en seint og um síðir.

Ég held að þvottakarfan mín sé með krabbamein. Eða þá að nágrannarnir lauma þvottinum sínum í hana. Það getur ekki verið að þrjár fullorðnar manneskjur noti önnur eins ógrynni af fatnaði.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Final countdown

 1. ————————————-

  „Ég á aldrei eftir að skilja fólk sem finnst skemmtilegt að versla.“

  Sammála!!!!!!!!!!!!

  Posted by: Þorkell | 23.12.2006 | 23:57:08

  ————————————-

  Hin vinsæla mýta um verslunaróðu konuna með pokahlaðann er óttalegt bull, að minnsta kosti þekki ég fáar shopaholics…

  Posted by: Gillimann | 24.12.2006 | 1:50:03

Lokað er á athugasemdir.