Lögmálið

Skilaboðin á gemsanum algjörlega úr karakter. Merkilegt hvað þú gerist alltaf ástúðlegur þessi stuttu tímabil sem ég trúi því að ég muni einhverntíma eignast maka, eins og þú ert annars hamingjusamur og alveg tilbúinn til að sleppa takinu á mér. Hálftíma síðar ertu kominn, af því þú veist að ég þarfnast þín þótt ég nefni það auðvitað ekki. Sonur minn hinn herskárri kemur heim af kvöldvakt og fagnar þér með því að klóra þér blíðlega undir hökunni. Ég hef margsinnis bannað strákunum að koma fram við þig eins og þú sért gæludýrið okkar en við hverju er að búast þegar þú lygnir augunum og biður um meira?

Anda að mér mjúkri nærveru þinni, grannur úlnliður þinn í greip minni, strýk fingri yfir vanga þinn og sé að þú ert að verða fullorðinn í kringum munninn.
-Kannski ættirðu að hlusta á mig Eva. Þegar allt kemur til alls hefur þessi eina sambúð mín enst lengur en öll þín sambönd samanlagt, jafnvel þótt maður telji skammtímabólfélaga með, segir þú.

Rétt yndið mitt Pan, alveg rétt. Málið er bara að ég er ekkert að stefna að sambandi sem líkist þínu. Vitaskuld gæti ég fundið virkan alkóhólista til að kúga mig ef það væri það sem ég vildi. Þú segir að ég sé að reyna að brjóta samskiptalögmál og það er rétt hjá þér en ég mun samt halda því áfram.

Þegar sonur minn Sveitamaðurinn var lítill átti hann þroskaleifang, kassa með misjafnlega formuðum götum og kubbum sem gengu í þau. Hann var mjög fljótur að átta sig á því að teningurinn gekk í ferninginn og sívalningurinn í hringinn. En hann reyndi samt vikum, ef ekki mánuðum saman að troða teningnum í hringinn. Hann prófaði að nota kraftana og hann reyndi að beita lagni. Hann sýndi ótrúlega þolinmæði og tók frekjuköst á víxl . Hann vissi vel að þetta gekk ekki upp en hann trúði því að það væri samt einhver leið framhjá lögmálinu. Að endingu gafst hann auðvitað upp en ég held að það sé ekki tilviljun hvað hann hefur gott auga fyrir stærð og hlutföllum. Hann er sérdeilis laginn við að troða hlutum í rými sem þeir ættu alls ekki að komast fyrir í og það er, held ég, vegna þess að hann viðurkennir ekki lögmál rúmfræðinnar án þess að reyna allar leiðir fyrst.

Það er rétt að við brjótum ekki lögmál, hvorki náttúrulögmál né stærðfræðilögmál en ef enginn hefði reynt það, hefðum við hvorki ljósaperur né flugvélar. Við uppgötvum ný lögmál þegar við reynum að komast fram hjá þeim sem við þekkjum. Við brjótum ekki sálfræðileg lögmál heldur (ef þau eru þá til en það er ég ekki sannfærð um) en hversu kjánalega sem það hljómar þá trúi ég því að til sé eitthvað betra en það sem ég sé í kringum mig. Ég trúi því að hægt sé að byggja ástarsamband á trausti og heiðarleika og að einhversstaðar sé klár og laglegur og skemmtilegur maður sem er til í að prófa það.

Best er að deila með því að afrita slóðina