Óafgreitt mál

Kannski er nett galið að fá egóbúst út úr því að fara inn á netbankann bara til að sjá skilaboðin enginn ógreiddur reikningur, rétt eins og það sé eitthvert afrek að standa við skuldbindingar sínar. En stundum er hamingjan fólgin í því að eiga fyrir reikningunum sínum og dálítinn afgang líka, sérstaklega þegar stóri bagginn vegna utanhússviðgerðanna kemur í desember. Ég gat borgað hann án þess að taka lán og er að rifna af monti, búin að kíkja oftar á netbankann en tölvupóstinn þótt ég hafi svosem haft nóg annað að gera. Lét Búðarsveininn bara skúra og sendast svo ég gæti setið og brosað framan í netbankann :-Þ

Annars er það góða við reikninga (eins og þeir geta annars verið hvimleiðir) að þeir eru oftast fyrirsjáanlegir. Kröfurnar eru skýrar. Þeir koma þegar maður býst við þeim og það er einfalt að reikna út hversu mikla vinnu og vesen þeir hafa í för með sér. Það er líka einfalt að breyta reikningi í greiðslukvittun ef maður hefur það sem til þarf. Eina vandamálið við reikninga er að það er ekki hægt að skila þeim.

Karlmenn eru öllu erfiðari. (Kannski konur líka en ég hef lítinn áhuga á konum, hef ekkert kynnt mér hegðun þeirra og hugsunarhátt og leyfi mér því að tala bara um dindilmenni sem sérstakt menningarlegt fyrirbæri. Auk þess fær freðýsan í mér kikk út úr því að alhæfa um karlmenn.) Yfirleitt afgreiði ég karlmann í fyrsta eða annað sinn sem ég hitti hann. Þ.e.a.s. tvö stefnumót duga yfirleitt til að skera úr um það hvort er einhver grundvöllur, tilfinningalegur, hugmyndafræðilegur og praktískur, fyrir frekari kynnum. Ef mér finnst eins og það gæti komið til greina dugar venjulega eitt deit í viðbót til að sannfæra karlinn (eða öllu heldur piltinn, ég hef aldrei hitt miðaldra karl oftar en tvisvar með því hugarfari að hann gæti hugsanlega verið kærastakandídat) um að það hafi verið reginmisskilningur hjá mér.

Ég á enn eftir að hitta einn mann fyrir jól. Hann er áreiðanlega vænsti maður eins og allir hinir en mér finnst álíka kvíðvænlegt að hitta menn og að fara í fatabúðir. Ekkert passar á mig og ef ég finn loksins eitthvað sem passar er það með lit eða sniði sem fellur mér ekki í geð.

Mig langar í stafrænan gleðibanka sem segir „enginn óafgreiddur karlmaður“.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Óafgreitt mál

  1. ——————-

    Stundum held ég að allir karlar í heiminum séu aðeins viðföngin þín, tilraunadýr í viðeigandi umhverfi.
    Að „Karlmenn afgreiddir hér“ sé aðeins blikkandi neonskilti, í nágrenni nornabúðarinnar sem hávært straumhljóðið yfirgnæfir.
    Alstaðar og hvergi líður þú um nágrennið og lætur smella í gómi og bylja á lyklaborði þegar þú sérð karlmann sem þér líkar.

    Posted by: Langi Sleði | 15.12.2006 | 9:13:48

    ——————-

    Duhh. Þú ættir bara að vita hvað gerist þegar ég sé karlmann sem mér líkar ekki.

    Posted by: Eva | 15.12.2006 | 9:43:24

    ——————-

    Mig grunar einmitt að það sé hlutur sem ég vil alls ekki vita!

    Posted by: Langi Sleði | 15.12.2006 | 9:58:27

Lokað er á athugasemdir.