Lögmálin

Það eru all mörg ár síðan mér varð ljóst að lögmál markaðarins gilda um makaleit eins og allt annað. Takmarkað framboð kallar á stærri fórnir, lágt verð og slakur gæðastaðall fara gjarnan saman o.s.frv. Það sem er mikilvægast, ef þú ætlar að selja einhverjum þá hugmynd að hann hafi sérstaka þörf fyrir návist þína, er að planta þeirri grillu í kollinn á honum að hann sé mun spenntari fyrir því að „viðskiptin“ fari fram en þú og að hann þurfi að hafa dálítið fyrir því að sannfæra þig. Og já, þú þarft að auglýsa. Kannski ekki í hádegisútvarpi rásar 1 en kynning ku víst vera nauðsynleg ef þú ætlar að ganga út. Auglýsingin þarf ekkert að vera í samræmi við veruleikann, aðalatriðið er að hún veki áhuga. Ég hef reyndar ekki virt lögmálin þótt ég kunni þau utanbókar enda er ég ennþá á lausu. Ég hef hinsvegar lengi ætlað að breyta því ástandi. Ég gæti t.d. ýtt úr vör auglýsingaherferð.

„Einhleypir menn athugið; einhleypir menn athugið: Notuð kona í boði fyrir réttan mann, þarfnast brjóstastækkunar en er að öðru leyti í þokkalegu ástandi.“

Í dag hitti ég sætan og sniðugan strák. Hann á það sameiginlegt með öllum sætum og sniðugum strákum sem ég hef hitt síðustu ár (að einum undanskildum) að hafa ágætt viðskiptavit og vera miklu yngri en ég.
Mér er alveg sama.

Best er að deila með því að afrita slóðina