Í upphafi var orðið

og orðið var Gvuð.

Og Gvuð var gjörsamlega að kafna úr stjórnsemi og frekju og setti þessvegna reglur um allan andskotann. Sumar reglurnar skrifaði hann á leirtöflur en þetta var fyrir tíma lyklaborðsins og hann varð fljótt svo þreyttur á að krafsa í leirinn að hann ákvað bara að hafa flestar reglurnar óskráðar.

Og Gvuð lagði það á mannskepnuna að allt líf hennar skyldi einkennast af stöðugri lygi og leikaraskap, einkum þó í samskiptum fólks sem hefði kannski getað hugsað sér að vera gott við hvert annað. Fyrsta boðorð Gvuðs til karlmannins hljóðaði svo:
-Ekki gera ekki neitt.

Fyrsta boðorð Gvuðs til konunnar var hinsvegar:
-Ekki gera neitt.

Meðal annarra skilaboða Gvuðs til konunnar voru þessi:
-Þú skalt ekki vera örvæntingarfull.
-Að langa til að sofa hjá karlmanni skal flokkast sem örvænting.
-Að langa til að sofa hjá einhverjum ákveðnum karlmanni skal flokkast sem meiri örvænting.
-Að langa til að sofa hjá sama karlmanninum á hverri nóttu skal flokkast sem mest örvænting.
-Allt sem þú hugsar, segir og gerir, sem gefur til kynna að þú hafir beinlínis áhuga á því að kynnast karlmanni betur mun í öllum tilvikum verða túlkað sem örvænting.
-Þú skalt ekki gera neitt sem gefur öðrum þá hugmynd að þú sért örvæntingarfull.
-Þú skalt ekki hafa samband við karlmann að fyrra bragði.
-Þú skalt ekki lýsa yfir sérstakri kæti ef karlmaður hefur samband við þig að fyrra bragði.
-Þú skalt ekki undir neinum kringumstæðum sýna karlmanni kynferðislegan áhuga að fyrra bragði.
-Þú skalt gera þér upp áhugaleysi í fyrstu 10 skiptin sem karlmaður sýnir þér kynferðislegan áhuga.
-Ef þú getur ekki hugsað þér að lifa án karlmanns, gefðu honum þá epli og bíddu svo þar til hann fattar sjálfur hvað þú átt við.
-Minnstu þess að ef karlmaður tekur ekki þátt í þessu lögboðna leikriti er skýringin ekki sú að hann skilji ekki þetta eplatrix eða sé að bíða eftir viðbrögðum frá þér, (enda er hann sanntrúaður og fylgir staðfastlega gullnu reglunni „ekki gera ekki neitt“) heldur einfaldlega sú að hann er „just not that into you“.

Gvuði sé lof að ég er trúleysingi. Nógu djúpstæð áhrif hefur ruglið í honum nú samt.

Best er að deila með því að afrita slóðina