Í sjónmáli

Ég var að átta mig á því að ég á ekki nema einn ungling lengur. Byltingin verður víst að teljast fullorðinn og mun halda út í víða veröld til að leita sér frægðar og frama þann 10. janúar.

Unglingurinn minn eftirlifandi fékk inni í MH. Ekki veit ég hvað fær hann til að halda að meðfædd andstyggð hans á skóla lagist eitthvað við að fara í MH. Hann hefur ekki einu sinni gaman af þeim greinum sem hann er mjög góður í (stærðfræði og hönnun) en félagsgreinar og tungumál hafa alltaf vakið honum megna óbeit. Mér finnst alltaf jafn flippað þegar krakkar sem þola ekki skóla standa sig samt með prýði og þótt séu engin sýnileg rök fyrir þessum skólaskiptum hans ætla ég bara að líta á það sem hluta af ráðgátunni og ekki gera neina tilraun til að hafa vit fyrir honum.

Sveitamaðurinn sumsé á leið í Hamrahlíðina og þar með hef ég enga ástæðu til að búa í Hafnarfirði lengur nema ef skyldi vera hringlgjarn sparibaukur. Búið að gera við blokkina og ég svona rétt mer það að eiga fyrir reikningnum sem er á eindaga á föstudaginn. Búin að gefa út formlega yfirlýsingu um fátæklingajól (eins og ég geri að jafnaði á þriðju hverri aðventu og hefur merkilegt nokk ekki lagt nokkurn mann í þunglyndi ennþá) og fresta áformum um að ráða einkaklæðskera til að sauma eitthvað sem fellur að yfirborðsflatarmáli míns víðfeðma afturenda, án þess að flaka frá mittinu. Tannspenging, gervineglur rifbeinaúrtaka, fótleggjalenging og silikonbrjóst verða líka að bíða betri tíma.

Nú þarf ég bara að heita á drottinn minn Mammon að redda því sem vantar upp á svo ég geti flutt eftir áramót. Ég er reyndar haldin sértækum flutningakvíða en allur sá tími sem fer í akstur, að maður tali nú ekki um umhverfisspjöllin, hlýtur að vera tveggja mánaða geðbólgu virði.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Í sjónmáli

  1. ____________________________

    heitir það kannski sértæk flutningaröskun?

    og fjártengd geðbólguröskun?

    Posted by: baun | 13.12.2006 | 9:26:14

Lokað er á athugasemdir.