Góður

-Ég er svo góður við þig Eva, sagði hann upp úr þurru.

Hann útskýrði það ekki nánar og þótt það hljómaði eins og fullyrðing en ekki eins og hann væri að leita svars, hlaut hann að vera að fiska eftir viðbrögðum. Fólk segir ekkert án tilefnis, aldrei.

-Kannski var hann að leita staðfestingar eða frávísunar á þeirri rökréttu en ekki endilega einu réttu hugmynd að tilteknar vefbókarfærslur mínar ættu sér rætur í samskiptum okkar.
-Kannski var hann ekki í neinum vafa um að ég ætti við hann og langaði að lýsa ánægju sinni yfir því hve meðvituð ég er um það hvað hann er góður við mig.
-Kannski var hann að reyna að sannfæra mig um að það sé eitthvað minna en augljóst hvað gengur á í lífi mínu, með því að láta mig halda að hann læsi ákveðna merkingu í texta sem gæti þýtt eitthvað allt annað.
-Kannski var hann að stríða mér með því að gefa berlega í skin að nánast hver sem á við mig einhver samskipti geti tekið hugrenningar mínar til sín, hvort sem það er viðeigandi eða ekki.
-Kannski var hann alls ekkert að vísa til vefbókarinnar. Kannski fannst honum hann bara sérdeilis góður við mig og vildi vekja athygli mína á því.

-Já, þú ert mjög góður við mig, það ertu, sagði ég.
Af því að það er hann.

Best er að deila með því að afrita slóðina