Þar sem hjarta þitt slær

-Hvernig er hann?
-Hann er lítill og fallegur og yndislegur.
-Eins og Elijah Wood?
-Nei. Ekki þannig. Ekki jafn bláeygður og það verður aldrei nema einn Elías í mínu lífi.
-Elías?
Hann horfði á mig eins og hann hefði gert stórmerkilega uppgötvun.

-Ég hélt að þú hefðir sent Elías til Ameríku. Fyrir löngu.
-Elías ætlaði alltaf til Ameríku og þangað fór hann. Það hefði ekki verið falllegt að halda honum hér.
-En það er Elías sem hlustar á hjarta þitt slá.
-Heldurðu að hann heyri hjartslátt minn alla leið til Ameríku? Það væri mjög skáldlegt.
-Það er mjög langt síðan ég hef heyrt í hjartanu þínu og þó hef ég legið með eyrað við brjóst þitt svo oft.
-Yndið mitt! Ég er skáldsagnapersóna. Ég hef ekki hjarta.

-Ég ætti að lesa vefbókina þína oftar.
-Þú þarft þess ekki, elskan. Þér leiðist skáldskapur og ég segi þér hvort sem er allt sem ég hugsa.
-Allt sem þú hugsar já. Allt sem þú hugsar. En ég held að það sé kannski þar sem hjarta þitt slær.

Best er að deila með því að afrita slóðina