Bara þetta eina

-Þannig að Mía litla er semsé að bíða eftir Snúði?
-Nei yndið mitt, það er Múmínsnáðinn sem bíður eftir Snúði. Mía litla bíður ekki eftir neinum.

-Ég skil ekki hvernig þú hugsar Eva. Hér er góður maður sem elskar þig. Hann er kannski ekki lítill og fallegur og yndislegur en ÉG er lítill og fallegur og yndislegur og hann er merkilegt nokk ekki hræddur um að ég taki þig frá honum. Einn andskotans maður í veröldinni sem er ekki fáviti og hefur samt hugrekki til að taka þér með öllum þeim djöflum sem þú dregur og í stað þess að henda þér í fangið á honum, þá heldur þú áfram að hitta skáldsagnakaraktera sem gera ekkert fyrir þig sem ég geri ekki betur. Menn sem eru búnir til úr dingalingalinga í hausnum á þér enda eru þeir allir eins.

-Þú fyrirgefur en ég skil ekki hvaðan þú hefur þessa hugmynd. Hún er reyndar alröng og ef það er eitthvað sem þú veist ekki um mig, þá er það einmitt hvað ég skrifa. Kannski er það rétt hjá þér, kannski ættirðu oftar að lesa það sem ég skrifa.
-Ég hlusta á þig. Þú ert endalaust að endurskapa sama fokkings fábjánann. Þú hittir einhvern sem er lítill og fallegur og yndislegur og bling! þú bara verður að setjast niður og skrifa. Það er eins og þú getir ekki orðið ástfangin nema á blaði.

Þögn

-Það er þá þessvegna sem þú ert svona hrifinn af honum. Þú heldur að þeir sem ég verð skotin í gætu orðið eitthvað meira en skáldsagnapersónur?
-Nei. Þú mátt alveg vera skotin í einhverjum. Eða mörgum. Ég held bara að hann gæti gert þig hamingjusama. Eins og ég get ekki og ekki heldur neinn annar sem er lítill og fallegur og yndislegur. Ég get hlustað á hjarta þitt slá ef þú bara leyfir mér það. Ég get komið hlaupandi þegar þú kallar. En ég get ekki gert þetta eina sem þú biður um. Ég bara hef það ekki í mér.
-Dettur þér í hug að ég setji það fyrir mig? Þetta eina? Sem skiptir engu máli hvort sem er. Ég er alltaf að biðja þig um eitthvað og þú gerir það allt.
-Það hlýtur þá að vera mér eðlilegt. Það eina sem ég hef nokkurntíma heyrt þig biðja um er þetta eina sem ég bara get ekki.
-Þú ert þó ekki afbrýðisamur út í mann sem ég hef hitt einu sinni? Bara af því að ég sagði að hann væri lítill og fallegur?
-Nei. Ég er afbrýðisamur út í Elías!
-Elías? Drottinn minn dýri. Þú ert nú ekki alveg í lagi.

Þögn

-Eva.
-Já.
-Kannski ættirðu oftar að skrifa það sem ég les.

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Bara þetta eina

  1. ———————————-

    Elías kemur alltaf öðru hvoru til landsins…..spurning hvað þú gerir áður en hann kemur.

    Posted by: R 02 | 28.11.2006 | 15:18:09

Lokað er á athugasemdir.