Svar til Kela

Þetta svar hans Kela er nú alveg tilefni til nýrrar færslu.

Það eru alls ekki allir karlar vonlausir, Keli minn, það hef ég aldrei sagt og ekki Anna heldur. Gremja okkur liggur í því hvað geðslegir menn eru óaðgengilegir. Þeir sem eru „á markaðnum“ eru:
a) ungt fólk
b) lítt frambærilegt fólk af báðum kynjum
c) nýlega fráskilið fólk (ekki tilbúið í skuldbindingarsamband) sem er ekki ennþá búið að átta sig á því að það eru meiri líkur á að finna góðan maka með því að halda sig heima og vona að nýr nágranni banki upp á í leit að rafmagnstöflunni.

Klaufaleg blíðubrögð karla (auðvitað ekkert allra heldur bara þeirra einhleypu karla sem eru hvað aðgengilegastir) standa ekki í sambandi við þekkingarskort, heldur almenna vanhæfni til þess sem mestu máli skiptir í öllum samskiptum; að hlusta, horfa og skynja. Konan er nefnilega svo skrýtin skrúfa að hún á það til að tjá sig á mjög dulúðlegan hátt. Kona gæti t.d. átt það til að segja „það er kalt hérna“ þegar hún vill að þú lokir glugganum, í stað þess að gefa beina skipun. Þetta skilur venjulegur karlmaður auðvitað alls ekki, hann heldur að hún sé að segja fréttir. Kona gæti líka tekið upp á því að færast undan, snúa sér, færa höndina á þér eða setja upp svip sem lýsir viðbjóði, ef þú snertir hana á einhvern þann hátt sem hún kann ekki að meta, í stað þess að segja „ojbara þetta er ógeðslegt hættu þessu strax eða ég kæri þig fyrir nauðgun„, sem væru auðvitað miklu skýrari boð.

Ég sé ekki alveg hversvegna hugguleg kona sem ver að meðaltali tíu tímum á viku til að styrkja vöðva, nudda burt appelsínuhúð, meika sig og maska, greiða hár og snyrta neglur, tæta hárin af skrokkum á sér með vaxborðum og klæða sig óaðfinnanlega, til þess eins að ganga í augun á körlum, ætti að hafa áhuga á því að hafa mök við eitthvað feitt og slappt sem hefur ekki hugsað um útlit sitt í 20 ár. Staðreyndin er sú að það er allt morandi í glæsilegum konum en karlmenn virðast oftar en ekki álíta að karlmannleg (og oft illa lyktandi) nærvera þeirra ein og sér nægi til þess að fá okkur uppí rúm. Því miður virðast margar konur hafa afskaplega lágan standard svo líklega eru það konur sem leggja línuna í þessum efnum sem öðrum.

Ég hef ekki þá reynslu af konum að ég geti dæmt um það hvernig þær standa sig almennt í bælinu, enda hef ég lítinn áhuga á því. Það nægir mér alveg að vita hvað ég sjálf þarf að gera til að láta karlmanni líða vel. Það veltur að mjög litlu leyti á píkudýpt, sogkrafti eða öðrum teknískum atriðum. Tæknilegasta trixið felst reyndar í því að gefa skilaboðin „segðu mér hvað þú vilt og sýndu mér hvernig“ í stað „nú skal ég aldeilis sýna þér hvað ég kann„. Mín reynsla er sú að karlmenn sækist eftir kynlífi af nákvæmlega sömu ástæðu og ég sjálf; til að fá notalega snertingu, tala um hluti sem maður talar ekki um við hvaða aðstæður sem er, draga úr einmanaleika og fá staðfestingu á því að nærvera manns skipti einhvern máli. Ef þetta snerist bara um líkamlega útrás stæði fólk ekkert í því að finna sér maka. Það er miklu einfaldara að fróa sér. Því miður virðast þessir sömu karlar oft halda að kona fari í bælið með þeim af því að hún sé með stór typpi, raðfullnægingu eða munngælur á heilanum. Það er ekki þannig kæru karlar. Konur á lausu eru nákvæmlega eins og þessar sem þið voruð að skilja við, við viljum ekki klámmyndaleikara, við viljum einhvern sem HLUSTAR, bæði á líkamstungumál okkar og það sem við höfum að segja.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Svar til Kela

  1. ——————————

    Þú ert yndisleg. Húrra!

    Posted by: lindablinda | 27.11.2006 | 21:36:53

    ——————————

    Þar sem við erum farin að tala um kynin og kynlíf þá er það nú mín reynsla að flestar konur virðist halda það að þeirra hlutverk sé að leggjast á bakið og njóta. Það sé hins vegar karlmannsins að sjá til þess að fullnægja þeim og svo sér í leiðinni (en þó ekki fyrr en þær hafa fengið eitthvað).

    Þessi afstaða að karlinn sé gerandi og konan þiggjandi er afskaplega óheilbrigð, að mínu mati.

    Konur kvarta oft yfir því að karlmenn þekki ekki líkama þeirra en mín reynsla er sú að það sama á við um konur. Þær þekkja ekki líkama karlmanna og halda að eina leiðin til að koma karlmanni til sé að vaða í klofið á honum. Þær prófa sig yfirleitt lítið áfram á öðrum stöðum.

    Ég gæti skrifað heila bálka um munngælur (eða munnkvalir eins og þær reynast oft vera) sem og aðra þætti er snerta kynlífið en læt hér staðar numið.

    Posted by: Þorkell | 27.11.2006 | 22:05:26

    ——————————

    Væri ekki bara einfaldara að segja karlinum að loka glugganum?

    Posted by: igor | 27.11.2006 | 23:21:02

    ——————————

    Igor, það væri allt of lausnamiðað.

    Posted by: Miss G | 27.11.2006 | 23:51:00

    ——————————

    Það eru meingölluð eintök meðal oss. :/ Að vera blindur á líkamstjáningu og það að fatta ekki þegar fólk vill láta loka blessuðum glugganum. Iss. Ég myndi nú svara „já ég er nú barasta sammála, lokaðu glugganum sjálf!“. Smá grín híhí.

    Ég er bara smá gallaður, nógu sæmilegur til að sú sem ég elska vill eitthvað með mig hafa. Og já, ég myndi loka glugganum fyrir hana, ég myndi smíða nýjan glugga úr tannstönglum ef hún bæði um það óbeint. 🙂

    Posted by: Gillimann | 28.11.2006 | 0:02:00

    ——————————

    Ég er hjartanlega sammála því að konur eiga bara að læra að tjá sig í stað þess að krefjast þess að karlmenn læri einhver óljós dulmál. Og á jafnréttistímum eiga þær að geta lokað glugganum sjálfar. 🙂

    Posted by: Þorkell | 28.11.2006 | 0:44:30

    ——————————

    Igor; nei. Kona getur lært að þegar eitthvað skiptir virkilega máli, þá er eina leiðin sú að tala við karlinn eins og hann sé fáviti. Við munum hinsvegar áfram segja „hvað ætli sé í sjónvarpinu í kvöld?“ og ætlast til svarsins „ég skal gá“ í staðinn fyrir „ég veit það ekki“. Þú þarft ekki að vera mjög gáfaður til að læra inn á þetta að einhverju leyti.

    Keli minn; þegar konan þín biður þig að gera eitthvað þá er það ekki endilega af því jafnréttisbaráttan sé að snúast upp í andhverfu sína. Það gæti t.d. einfaldlega verið að þú stæðir nær glugganum eða að hún sé upptekin við að brjóta saman þvottinn af því að þér hafði bara ekkert dottið það í hug (reyndar ert þú óvenju húslegur en taktu eftir því hvernig þessu er farið á flestum öðrum heimilum)

    Ég er annars að velta því fyrir mér hvernig útkoman er ef hún liggur og þiggur á meðan hann fremur frækileg afrek sín á henni. Merkilegt að mannkynið skuli ekki löngu vera útdautt.

    Posted by: Eva | 28.11.2006 | 6:50:24

    ——————————

    Sælir eru einfaldir.

    Posted by: igor | 28.11.2006 | 7:24:08

Lokað er á athugasemdir.