Frekar gremjulegt

… þegar ég loksins á peninga til að koma heimilinu í það horf sem ég vil, hvað virðist vera miklum erfiðleikum háð að fá það sem mig vantar.

Þrír af fjórum hlutum sem ég ætlaði að kaupa í IKEA eru ekki til. Ég keypti bókahillur og þær breyta heilmiklu, nógu miklu til að ég sjái fram á að geta einhverntíma litið á þessa íbúð sem heimili. Það eykur mjög á kæti mína en dugar þó ekki til að gera mig hamingjusama. Sjónvarpsskápurinn kemur reyndar væntanlega fyrir jól en ekki tölvuskápurinn og skenkurinn. Tveggja sæta sófinn í sömu línu og þriggja sæta sófinn minn er ekki með sama áklæði og það kemur ekki aftur. Skítt með það, gamli sófinn frá ömmu og afa er búinn að vera hjá bólstraranum síðan í febrúar og ég hélt að hann yrði nú bara feginn að losna við hann en þegar ég hringdi sagðist hann ekki vera byrjaður á honum ennþá.

Gluggatjöld -martröð dauðans. Ég fann akkúrat rétta efnið en þá er ekki til nóg af því fyrir allan stofugluggann. Ég fann annað sem ég vildi fá en það þarf að sérpanta og minnst 4 vikna afhendingartími, þá er saumaskapurinn eftir. Ég fann loksins efni sem kemur til greina í vængi en vildi fá einlitan kappa með og þá er einlita efnið ekki til. Fellitjöld fyrir svefnherbergin er ekki hægt að fá fyrir jól. Efnið sem ég valdi í fellitjöldin er ekki til í réttum lit. Samt var til sýnishorn af litnum sem mig langaði í svo ég sagði skítt og laggó, fyrst ég fengi þau hvort sem er ekki fyrir jól gæti ég alveg eins beðið nokkrar vikur í viðbót. Jamm! það semsé gengur ekki heldur. Það er ekki hægt að panta þetta tiltekna efni í svona litlu magni og búðin vill ekki panta heila rúllu af því. Það er semsé bara til sýnis en ekki til sölu.

Ég sé að mér duga ekki þúsund trilljónir. Ég þarf greinilega að verða nógu rík til að festa kaup á verksmiðjum víðsvegar um heiminn til að fá það sem ég vil.

Best er að deila með því að afrita slóðina