Birta: Mér lýst ekkert á þetta! Ég vil að þú hendir þessum helvítis síma í sjóinn.
Eva: Hættu þessari vitleysu.
Birta: Vitleysu! Hann var m.a.s. búinn að eiga við hann áður.
Eva: Hann hlóð símann fyrir okkur, svo við gætum notað hann strax. Og teiknaði á hann hjarta. Ég myndi nú bara kalla það ósköp sakleysislega umhyggju.
Birta: Af hverju kom hann ekki bara með súkkulaði eða blóm eins og aðrir menn fyrst hann þurfti endilega að vera að gefa okkur eitthvað?
Eva: Sími er táknrænn fyrir þann sem vill mynda tengsl.
Birta: Er ekki í lagi með þig? Sími er ekkert annað en hlerunarbúnaður, rómantíski hálfvitinn þinn.
Eva: Hvurslags eiginlega vænissýki er þetta eiginlega. Hvers vegna í fjandanum ætti ókunnugur maður að vilja njósna um okkur?
Birta: Hann vinnur hjá VALDINU.
Eva: Drottinn minn og djöfull, þú ímyndar þér þó ekki að Björn Bjarnason hangi yfir makaleitarpælingum á blogginu okkar og sendi svo njósnara í gervi vonbiðils til þess að koma á okkur hlerunarbúnaði?
Birta: Hvað er svona fráleitt við það? Blásaklaust fólk verður fyrir persónunjósnum. Fyrst Svavar Gestsson var talinn stórhættulegur landráðamaður á sínum tíma, hvaða firra gæti þá ekki verið uppi núna með þennan apakött í stól dómsmálaráðherra? Hann vinnur fyrir VALDIÐ, gleymdu því ekki.
Eva: Ertu ekki með öllum mjalla? Við unnum sjálfar fyrir valdið á sínum tíma.
Birta: Það varst þú. Þótt ég neyddist til að deila með þér líkama var það ekki ég sem fór í búning.
Eva: Og þó svo væri hlerunarbúnaður í þessum síma, hvað með það? Við stöndum ekki í neinum landráðum. Er nokkuð svo agalegt við það þótt Marskálkurinn heyri mig biðja strákana að fara varlega í umferðinni eða kaupa mjólk á leiðinni heim?
Birta: Eitt er að geta ekkert gert í því þegar heimasíminn er hleraður, annað að bjóða óvininn velkominn og leyfa honum að spila með sig.
Eva: Slakaðu á geðveikinni. Ég skal setja kortið í gamla símann aftur, ég kann hvort sem er ekkert á svona flókna græju.
Birta: Jæja, hvað tefur þig?
Eva: Ég næ ekki helvítis tækinu í sundur. NEI, ekki þú reyna, þú skemmir hann bara með þjösnagangnum í þér.
Birta: Hvað sagði ég? Sími sem er ekki hægt að opna. Hahh!
Eva: Hann er bara stirður af því að hann er nýr bjáninn þinn. Andskotinn hver getur verið að hringja í mig með leyninúmeri um miðja nótt?
Birta: Sko! Sagði ég ekki! Þarftu frekari sönnunargögn?
Eva: Heldurðu að Marskálkurinn sé að hringja? Þú heldur kannski að hann ætli að mása í símtólið?
Birta: Þeir eru áreiðanlega að þessu til að virkja einhvern búnað. Nei! ekki svara þessu!
Eva: Þetta er allt í lagi. Í alvöru. Tollheimtumaðurinn gaf okkur líka síma, manstu.
Birta: Og hjá hverjum vann Tollheimtumaðurinn?
Eva: Djöfull ertu skemmd.
Birta: Djöfull ert þú djúpt sokkin í afneitun.
Eva: Skemmd.
Birta: Heimsk.
Eva: Skemmd.